Færsluflokkur: Tónlist

Skemmtileg söngkeppni

Það er alltaf jafn gaman að horfa á söngkeppni framhaldsskólanna. Standardinn á þessari keppni fer sífellt hækkandi og maður er hættur að sjá einhver algjör flopp eins og maður sá stundum fyrir nokkrum árum. Vissulega eru ekki öll atriðin algjör toppatriði en það heyrir til algjörrar undantekningar ef eitthvað er verulega slæmt.

Sigurvegarinn úr VMA vann þetta verðskuldað. Mér fannst hann strax sigurstranglegur um leið og ég heyrði í honum. Annað sætið hjá FÁ var líka verðskuldað en þriðja sætið hjá Fjölbraut á Suðurnesjum var það engan veginn. Mörg atriði voru mun betri en það, og bendi ég meðal annars á MA og Versló. Að maður tali nú ekki um MH, sem mér fannst raunar flottasta atriðið. Ég hef alltaf haft mjög gaman af A capella söng, enda er hann mjög flottur þegar hann tekst vel. Það er hins vegar afar vandasamt að ná honum góðum og það má lítið út af bera til að hann verði algjört flopp. En MH-ingarnir náðu þessu frábærlega og mjög gott að þeir skyldu þó fá einhverja viðurkenningu fyrir það með sigri í SMS-kosningunni.

Snorri Sturluson fullyrti að þeir sem vinna keppnina nái sjaldnast langt, þó að ýmsir aðrir sem hafi stigið sín fyrstu spor hafi gert það. Ég skrapp á Wilkipediu til að athuga hvaða sigurvegarar úr keppninni hefðu náð langt á söngbrautinni. Og það eru Margrét Eir ('91), Margrét Sigurðardóttir ('92, er reyndar í klassískum söng), Emilíana Torrini ('94), Þórey Heiðdal ('96), Guðrún Árný Karlsdóttir ('99), Sverrir Bergmann (2000) og Anna Katrín (2003). Þetta finnst mér ekki svo slæmt hlutfall. En svo eru í neðri sætum að finna fólk eins og Móeiður Júníusdóttir, Páll Óskar, Hera Björk, Svavar Knútur Kristinsson, Regína Ósk og Þorvaldur Þorvaldsson. Svo hafa Magni, Birgitta og Jónsi líka keppt. Það eru sennilega öllu fleiri, en það geta heldur ekki allir unnið.

Finnst mjög gott hjá RÚV að sýna þessa keppni, enda um prýðis sjónvarpsefni að ræða. Finnst reyndar að kynnarnir ættu að vera í hópi framhaldsskólanema eins og var einu sinni.


Tónlist af handahófi

Fyrir nokkru var í gangi trend í bloggheimum þar sem menn áttu að spila tíu lög af handahófi af mp3-spilaranum sínum og segja frá lögunum.

Þar sem ég er búinn að koma öllu tónlistarsafni heimilisins inn í ipodinn minn fyrir utan diska sem Líf á, en safnið samanstendur af alls 7.320 lögum, ætla ég að reyna þetta núna, og hyggst gera þetta nokkuð reglulega hér á síðunni. Tekið skal þó fram áður en ég byrja að þarna eru lög af diskum Rósu, hluti af barnalögum í eigu Lífar og jólalög, þannig að það eru ekki öll lög þarna inni að mínu skapi né eiga heima í eyrum landsmanna á þessum árstíma.

En hér koma fyrstu tíu lögin þegar ipodin er settur á Shuffle.

1. Duran Duran: None of the above. Af Wedding Album.

Kannast mjög lítið við þetta lag og finnst það reyndar frekar leiðinlegt. Það eru allavega mörg Duran Duran lög sem ég hefði frekar viljað fá en þetta. Samhengislaus fimm mínútna steypa. Ekkert meira um það að segja.

2. Connie Francis: Who's Sorry Now. Af safndisknum Music 4 you.

Þar sem ég fíla vel gamla (eða gamaldags) tónlist finnst mér þetta lag fínt. Ein af þessum gömlu góðu ballöðum sem manni líður alltaf vel þegar maður hlustar á. Ef mig misminnir ekki varð þetta lag þekkt fyrir nokkuð mörgum árum hér á landi þegar það var notað í sjónvarpsauglýsingu um Tópas. Þarf stundum ekki meira til :)

3. Dikta: Flies Don't Tell: Af plötunni Hunting for Happiness.

Þetta er diskur sem mér áskotnaðist eftir að ég tók viðtal við þessa hljómsveit, sem er úr Garðabæ, fyrir Víkurfréttir. Hef ekki mikið hlustað á diskinn en þó heyrt eitt og eitt lag. Þetta er hið ágætasta rokk og strákarnir virðast vel spilandi. Mér skilst að hægt sé að kaupa afurð þeirra á Itunes og mig minnir líka að þeir hafi hugað á einhverja landvinninga. Veit ekki hvort það hafi tekist eða hvort þeir eru ennþá að vinna í því. En það hefur margt verra en þetta notið alþjóðlegrar hylli.

4. Bítlanir: A Hard Day's Night. Af safndiski þeirra fyrir árin 1962-66 (þeim rauða tvöfalda).

Þetta er náttúrulega klassískt og margir mér fróðari um Bítlana gætu sagt meira um þetta lag. Bítlarnir eiga auðvitað mörg snilldarlög og þetta er eitt þeirra. Mér líður reyndar stundum oft sjálfum eins og textinn lýsir eftir langan vinnudag.

5. Bing Crosby: Santa Claus is coming to town. Af plötunni Christmas with Bing Crosby.

Það fór þó aldrei svo að jólalag kæmi ekki upp í spilaranum! En Bing Crosby er náttúrulega kóngur jólalaganna. Fer annars ekkert frekar út í slíkar pælingar núna í mars.

6. Stockard Channing: There are worse things I could do. Af plötunni Grease.

Ég heyrði þetta lag, ásamt reyndar flestum öðrum lögum úr Grease, áður en ég svo sá myndina. Pældi aldrei þannig í textanum þannig að hann væri sunginn af stelpu sem hefði, jahh, sofið nokkuð oft hjá. Sá svo íslensku útgáfuna af þessu með Birgittu og Jónsa í aðalhlutverki, en þar fór Unnur Ösp með þetta tiltekna hlutverk, og gerði það gríðarlega vel. Jafnvel betur en Stockard Channing.

7. Spain: Untitled #1: Af plötunni Definitivt Bear Nr. 2-96.

Um þetta veit ég nákvæmlega ekki neitt. Þetta er eitt af því sem Rósa kom með í safnið og mér hefur einhvern veginn aldrei dottið í hug að hlusta á þetta. Það er samt ágætur taktur í þessu þó að þetta sé lag í rólegri kantinum. Hef að öðru leyti ekkert um þetta að segja.

8. Count Basie: I'm shouting again. Af plötunni Compact Jazz - Count Basie:

Fínt að það kom einhver djass inn í þetta. Count Basie er með betri bigböndum sem ég hlusta á. Þetta tiltekna lag er reyndar ekki í neinu sérstöku uppáhaldi. Kraftmikið og fjörugt en grípur mig samt ekki sérstaklega.

9. Bergsveinn: True colors. Af plötunni September.

Þetta var ein af þeim plötum sem kom mér á óvart þegar ég hlustaði á hana. Hún er merkilega góð miðað við margar aðrar cover-plötur sem íslenskir tónlistarmenn hafa gefið út. Miðað við hvað Cindy Lauper hefur sett sérstakan karakter á þetta lag finnst mér Bergsveinn fara mjög vel með þetta lag, sem og reyndar flest önnur lög á þessum diski.

10. Ethan Hawk: I'm Nuthin'. Af plötunni Reality Bites.

Þetta er annar diskur sem Rósa lagði til heimilisins. En þegar ég renndi yfir hann fannst mér merkilegt hvað eru mörg góð lög úr þessari mynd. Mér finnst þetta lag reyndar ekki eitt þeirra, það höfðar ekki sérstaklega til mín. Ég hef reyndar ekki séð myndina - kannski tími til kominn að taka hana á leigu.

Dettur kannski í hug að gera þetta aftur eftir einhverjar vikur.


Hljómar enn betur

Var að horfa á myndbandið með Eiríki Hauks. Mér líst svakalega vel á þetta. Breytingarnar hafa tekist vel, myndbandið sýnir mikið af íslensku landslagi sem hefur óskiljanlega lítið verið notað í íslenskum Eurovisionmyndböndum og Eiríkur er enn sami töffarinn. Vona að háraliturinn í myndbandinu skýrist þó af myndvinnslunni en ekki því að hárið hafi verið litað.

Held að við séum á ágætis stað í röðinni. Það hefði reyndar verið slæmt að vera númer tvö en við erum þó hæfilega framarlega til að týnast ekki einhvers staðar í miðjunni.

Og þá er að sjá hvort þetta dugi til að komast út úr forkeppninni.


mbl.is Eiríkur verður fimmti á svið í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein lausn á vandamáli skapar annað vandamál

Mikið svakalega var ég ánægður með þessi úrslit í Eurovision.

Ég var búinn að segja fyrir keppnina að við værum líklegastir til að ná árangri með Eiríki Haukssyni. Uppskar ég fyrir það háðsglósur frá minni heittelskuðu: "Hver heldur að kjósi hálf fimmtugan rokkara til að keppa?" Þess ber að geta að hún sat sjálf heilu dagana inni í herbergi hjá sér hlustandi á Gaggó Vest fyrir 20 árum eða þar um bil. Það var greinilegt að einhverjir sáu ástæðu til að kjósa hann.

Það kom mér hins vegar á óvart að hvorki Jónsi né Heiða komust í topp þrjá. Hvort tveggja fín lög. Þessi keppni hafði þó þann kost umfram keppnina í fyrra að fyrirfram var enginn augljós sigurvegari - það voru nokkrir sem komu til greina. Í fyrra var vitað fyrirfram að Silvía Nótt myndi vinna keppnina þó að ég hafi alls ekki verið þeirrar skoðunar að það væri besta lagið. Þegar á heildina er litið fannst mér lögin samt betri í fyrra en í ár.

En ég held að Eiríkur eigi eftir að koma okkur upp úr forkeppninni - en það hélt ég reyndar líka á sínum tíma þegar Selma fór út með If I had your love. Ég stend samt við þetta.

En þegar búið er að leysa þetta mál og við búin að velja frambærilegt lag í keppnina kemur nýtt vandamál - hver verður fulltrúi Íslands meðal hinna norrænu Eurovision-sérfræðinga? Augljósasti kandídatinn væri náttúrulega Páll Óskar en ég veit ekki hversu slarkfær hann er í Norðurlandamálum. Það verður spennandi að sjá hver fær þetta hlutverk.


mbl.is Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra systir spillir litlu systur

Líf, eldri dóttir mín, er byrjuð í stelputónlistinni. Hún á meðal annars heilan fjórtán laga disk með lögum sem eiga að vera sungin af Bratz-dúkkunum. Líf er mikið fyrir Bratz, eiginlega svo mikið að ég veit ekkki hvernig Bratz-framleiðandinn myndi fara að án hennar.

Fyrir nokkrum dögum voru systurnar Líf og Sif (sem er nýorðin eins árs) að leika sér saman í herbergi Lífar. Það er auðvitað frábært og Líf er ótrúlega dugleg að leika við hana. En heldur leist mér illa á blikuna þegar Líf kallaði svo á mig inn í herbergið og sagði: "Pabbi, komdu og sjáðu!" Þegar ég lít inn í herbergið setur Líf eitt af lögunum af Bratz-disknum á. Sif varð eitt bros, dillaði rassinum fram og aftur og sneri sér nokkrum sinnum í hringi. Það var semsagt dansað að innlifun.

Til að Sif fari ekki sömu leið og Líf í tónlistarsmekk er ljóst að ég verð að grípa inn í. Hér eftir mun ég spila reglulega fyrir hana Billy Joel, Dire Straits og Trúbrot, og svo fær hún líka að heyra djass á borð við Stan Getz, Dexter Gordon, Yellow Jackets og Weather Report.

Ég hlakka til að sjá hvort hún muni dilla sér jafn mikið við þá tónlist.


Nýja fréttastefið

Nýtt fréttastef Fréttastofu Útvarpsins hefur vakið athygli og fengið mikla umfjöllun. Flestir hafa þó verið heldur neikvæðir. Björn Ingi Hrafnsson hefur til dæmis skrifað opið bréf til Óðins Jónssonar fréttastjóra um að stefinu verði breytt til baka og einhverjir fleiri sem hafa hringt inn á fréttastofu hafa tekið undir það.

Það var alveg viðbúið að þegar skipt var um stef yrðu viðbrögðin blendin, enda fólk búið að venjast saman kvöldfréttastefinu í 25 ár auk þess sem hljóðmerkið á undan stuttu fréttunum hafði verið ansi lengi. Það mun hins vegar aldrei koma í ljós fyrr en eftir nokkrar vikur, jafnvel mánuði, hvernig breytingin tekst til. Þetta fréttastef á eftir að venjast, og þegar menn hafa haft tækifæri til þess þá er rétt að spyrja að því hvernig til hefur tekist.

Það er líka rétt að benda á að einn af megintilganginum með þessu var að allir fréttatímar Útvarpsins hefðu sama auðkennið. Áður var þetta þannig að styttri fréttatímarnir höfðu einhvers konar klukkuspilshljóðmerki, ekkert stef var á undan hádegisfréttunum og stef Atla Heimis var svo á undan kvöldfréttunum. Og fyrst ákveðið var að reyna að hafa sama auðkennið var langbesta leiðin að gera nýtt stef.

Ég get hins vegar sagt fyrir mig persónulega að ég hef ekki vanist þessu nýja stefi almennilega ennþá. En ég ætla að gefa því einhverjar vikur áður en ég dæmi um hvernig til hefur tekist.


Allt á uppleið

Lögin í kvöld voru töluvert betri en vikunni á undan. Svei mér þá ef flest lögin í þessum þætti hefðu ekki komist áfram ef þau hefðu verið í þættinum fyrir viku.

Ég er nokkuð sáttur við valið á þeim þremur lögum sem komust áfram. Þegar lögin höfðu hljómað var ég alveg viss um að þetta væri spurning um hvaða lag færi með lögum Jónsa og Eiríks Haukssonar. Fannst bæði lag Vonar og Friðriks Ómars koma til greina og það fór svo að Friðrik Ómar fór áfram. Rokklagið hefði sennilega náð lengra ef söngvarinn hefði verið kraftmeiri. Fannst vanta töluvert upp á flutning lagsins.

En þetta er í það minnsta töluverð framför frá því sem boðið var upp á í vikunni á undan.

***

Annars var þetta sjónvarpskvöld notað til að hvíla lúin bein eftir afmæli dagsins, en í dag var haldið upp á eins árs afmæli Sifjar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að heilt ár sé liðið síðan hún fæddist. En tíminn hefur liðið svakalega hratt síðan þá. Sif virtist hin ánægðasta með afmælið en var eins og vanalega mest fyrir hollustuna - gat aðeins borðað einn bita af súkkulaðikökunni en hakkaði hins vegar í sig gerbollurnar.

Ætli ég sé að ala upp eitthvað heilsufrík?


mbl.is Tveir Eurovisionfarar í úrslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti tónninn hljóðnaður

Michael Brecker er látinn. Það er mikil eftirsjá í þessum saxafónleikara. Það voru 4-5 saxafónleikarar sem ég hlustaði hvað mest á þegar ég var í námi í FÍH. Michael Brecker var einn þeirra.

Það sem var mest heillandi við hann er þessi fallegi tónn sem hann hafði, og lagði mikið upp úr því að gera sífellt betri. Þetta þétta sánd í tóninum var það sem var heillandi við að hlusta á hann. Ég á reyndar aðeins eina sólóplötu með honum og svo aðra undir nafninu Brecker-brothers, þar sem hann spilar með Randy bróður sínum.

Það var reyndar ekki fyrr en ég fór að hlusta á hann í FÍH sem ég uppgötvaði að Brecker lék á saxafón í laginu Your latest trick með Dire Straits, sem er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum.

Mér finnst Mogginn reyndar gera heldur lítið úr honum með því að minnast ekki á að hann hafi nú gefið út ýmislegt undir eigin nafni en ekki aðeins spilað hjá öðrum. En umfjöllun um erlendan djass á því miður heldur undir högg að sækja í íslenskum fjölmiðlum - það er held í djassþáttum rásar eitt sem hann fær pláss.

Skora hér með á Lönu Kolbrúnu Eddudóttur að gera góðan þátt tileinkaðan Michael Brecker fljótlega.


mbl.is Saxófónleikarinn Michael Brecker látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Safndiskar

Enn er vinsælt að gefa út safndiska. Maður hélt að á tímum netsins og mp3-spilaranna myndi eitthvað draga úr vinsældum þessara diska, en það er öðru nær, eins og sést hvað best á því að einn af söluhæstu diskunum fyrir nýliðin jól var safn 100 íslenskra jólalaga - sem mörg hver hafa komið út á ansi mörgum safndiskum áður.

Ég tók dæmi af handahófi með jólalagið Hátíðarskap með Þú og ég, sem er sennilega það jólalag sem er mér hvað mest að skapi og kemur mér í hvað mesta jólaskapið. Á tónlist.is má sjá það á sex safnplötum, og er ég viss um að sá listi er ekki tæmandi. Það er því ekki ósennilegt að margir eigi sama lagið heima hjá sér á tveimur og jafnvel fleiri diskum.

Af hverju kaupa menn ennþá þessa diska í gríð og erg þegar hægt er að ná í þessi lög á netinu, t.d. á tonlist.is, fyrir hagstæðara verð (þó að það sé reyndar ekki algilt)?

Sjálfur keypti ég nokkra safndiska þegar ég keypti hvað mest af geisladiskum almennt fyrir 10-15 árum. Þar sem ég er að dæla allri tónlist sem ég á inn á Ipod-inn minn núna fór ég í gegnum nokkra. Þarna má finna perlur eins og Bjartar nætur, Diskóbylgjan, Fyrstu árin, Aldrei ég gleymi og Í sumarsveiflu svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru diskar sem ekki nokkur maður man eftir í dag.

Safndiskar eru eitthvað sem plötuútgefendur virðast gefa út í því skyni að græða sem mest með sem minnstri fyrirhöfn. Og ef útgáfan er vel heppnuð, eins og þetta jólalagasafn augljóslega var, er það í góðu lagi. En hvað ætli sé hægt að fá Íslendinga til að kaupa sama lagið oft af mismunandi diskum?


Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 23
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 333

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband