Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ferð framundan

Ýmislegt að gerast hjá mér þessa dagana.

Líf varð níu ára á mánudaginn. Við ákváðum að afmælið fyrir bekkjarsystur og vinkonur yrði haldið utan heimilis og því var ákveðið að halda það í Stjörnustelpum. Þar var stelpunum boðið upp á málningu og þær fengu að klæða sig upp eins og poppstjörnur. Þetta ku víst hafa slegið í gegn - en það er samt undarleg tilfinning að hafa ekki verið viðstaddur þetta afmæli sjálfur. Næstum eins og að maður hafi svikist um að vera einhvers staðar þar sem maður á að vera. Get þó huggað mig við það að fyrir viku var haldin veisla fyrir ættingjana, og hún var með gamla laginu, þ.e. kökur og með því.

***

Í vikunni fékk ég þær fréttir að stefnt er að því að ljúka umbroti bókarinnar í lok næstu viku. Ég er orðinn verulega spenntur að sjá afraksturinn. Þá er komið nafn á bókina - sem er flott og grípandi. Ekki spurning að þetta er jólabókin í ár.

***

Sig er nýstigin upp úr veikindum - þetta er í annað sinn sem hún veikist með stuttu millibili. Ótrúlegt hvað pestir sækja í þetta barna. Veikindin núna voru hins vegar gin- og klaufaveiki, sem hún fékk um leið og hún fór að ganga á deildinni (og nei, þessi sjúkdómur er ekki bara í húsdýrum). Það tók fljótt af á meðan fyrri veikindi tóku næstum viku.  Ég vona (7-9-13) að þetta sé nú að baki hjá henni.

***

En það sem hæst ber er að nú er langþráð helgarferð framundan hjá mér og Rósu. Það var ákveðið skyndilega að kanna möguleikann á því að Rósa kæmi með mér til Liverpool, en ég á að vera fararstjóri í hópferð á leikinn gegn Fulham 10. nóvember. Þó að Rósa fái ekki miða á leikinn gekk þetta upp að öðru leyti og er mikil tilhlökkun með þetta. Kannski líka kvíði, því við höfum aldrei skilið Sif eftir svona lengi - en það er alveg ljóst að við höfum bæði gott af þessu!

***

Á morgun er ég að fara að keppa á fjölmiðlamótinu. Takmarkið er að ná að skora eitt mark. Fjarlægt kannski - en maður verður alltaf að setja sér háleit markmið!


Ojjj

Fyrir nokkrum dögum varð ég verulega áhyggjufullur.

Í hvert sinn sem ég kyssti Sif bless eða góða nótt sagði hún: "Ojjjjj". Þegar þetta var farið að ganga svona í 2-3 daga var mér hætt að lítast á blikuna. Var ég andfúll? Eða var þetta eitthvað persónulegt? Eða var kannski komið almennt kossaógeð yfir hana?

Skýringin reyndist hins vegar einföld - þegar ég rakaði mig hætti hún þessu. Síðan þá hef ég passað betur að raka mig reglulega.

Besta aðhald sem hægt er að fá!


Fjárfestingar

Þó að hléið sé orðið langt núna þá verður þessi færsla ekkert merkilegri en hver önnur. Enda mun ég bara setja eitthvað inn hér þegar ég nenni því.

En allavega - nokkrar stórar ákvarðanir bíða fjölskyldunnar núna. Eða - allavega tvær.

Við höfum mikið verið að velta því fyrir okkur hvort við eigum að fara að uppfæra bílinn. Ekki það að sá sem við eigum hafi reynst okkur illa - það er Toyota Corolla Wagon sem var keyptur nýr í ársbyrjun 2005. Spurningin er hins vegar hvort ekki sé rétt að fara fljótlega út í að uppfæra meðan sæmilegt verð fæst fyrir þann sem við eigum. Við erum alvarlega að spá í Corolla Verso út af því að möguleiki er á tveimur aukasætum í skottinu, og þar með er hann orðinn sjö manna. Sem getur verið afar hentugt. Nokkur heilabrot fylgja þessu núna.

Hitt varðar bankaviðskipti, en sú pólitíska ákvörðun hefur verið tekin að leita að betri bankakjörum og nú er verið að kanna hvað bankarnir bjóða. Þar er margs að gæta og spurningin er hver býður það sem hentar okkur best. Það verður líka lagst yfir þetta næstu daga.

***

Á morgun (eða í dag) er Sif að fara í fyrstu heimsókn sína í leikskólann, og þar með hefst aðlögun í honum. Í næstu viku byrjar Líf svo í fjórða bekk í Áslandsskóla.

Svakalega er maður orðinn gamall!


Dásamleg dönsk sveit

Nú er ég staddur í bænum Skjern á Jótlandi í Danmörku. Þar dveljum við í húsi Vignis, bróður hennar Rósu, sem spilar hér handbolta. Þetta er frábært umhverfi til að vera í fríi. Vignir er sjálfur fjarri góðu gamni en auk okkar fjölskyldunnar er vinafólk okkar líka hér - hjón með unglingsstúlku og tvo stráka, sex og þriggja ára. Við fórum í Legoland á fimmtudaginn sem var mjög skemmtilegt en annars hefur þetta verið að mestu.

Mér skilst að á þessum ferðum erlendis hafi ég misst af einni mestu veðurblíðu síðari ára í höfuðborginni. Mér er bara slétt sama. Ég hefði aldrei náð að slappa svona vel af á Íslandi - maður hefði alltaf verið með hugann við vinnuna.

Það er samt einn galli við svona frí - þau eru alltof fljót að líða.


Noregsblogg

Þessi færsla er skrifuð frá Ulvik, innst inni í Harðangursfirði í Noregi, þar sem við fjölskyldan erum í heimsókn hjá mákonu minni og hennar fjölskyldu. Vika er liðin af fríinu langþráða og þrátt fyrir að grenjandi rigning hafi verið síðustu þrjá daga hefur fríið hingað til staðið undir væntingum.

Flugum til Billund á miðvikudaginn var og keyrðum þaðan til Hirtshals. Það er afar gott að keyra í Danmörku - allt svo flatt. Ég hef aldrei komið til Jótlands áður, og reyndar lítið sótt heim danskar sveitir. Ökuferðin var hin sæmilegasta þó að Sif hafi látið ófriðlega framan af - enda er hún ekki hrifin af löngum bílferðum.

Gistum á fínu gistiheimili í Hirtshals, Hotel Skagerak, og síðan var skipið tekið á fimmtudagsmorguninn til Bergen, en þangað er tæplega sólarhrings sigling. Colorline heitir fyrirtækið sem sér um rekstur skipsins. Þetta var hin fínasta sjóferð - ágætis staðir til að fá sér að borða og nóg um að vera fyrir börnin. Káetan var líka fín og sjóferðin var þægileg. Það er því óhætt að mæla með þessum ferðamáta - þetta var ólíkt gáfulegra en að keyra alla leiðina miðað við hvernig Sif er í bíl. Það er þó eitthvað sem ég væri alveg til í að prófa síðar.

Við komum til Bergen á föstudaginn í glampandi sól og keyrðum þaðan beint til Ulvik. Vorum þar í sól fyrstu þrjá dagana, en síðan þá hefur rignt. Líf hefur leikið sér mikið við Ölmu frænku sína, sem er tveimur árum yngri, og Sif hefur unað sér vel í garðinum - sama hvort það hefur verið sól eða rigning.

Fréttafíkillinn ég hef þó ekki getað slitið mig frá íslenskum fréttavefjum og reynt að fylgjast með fréttum og hlusta á fréttir Útvarpsins. Guði sé lof fyrir Internetið!

Hér erum við annars í mjög góðu yfirlæti. Á mánudag höldum við svo aftur af stað - tökum sama skipið til Hirtshals aftur og keyrum svo til Skjern, þar sem við verðum restina af fríinu, eða í rúmar tvær vikur.


Endalaus veikindi

Nú er Sif búin að vera veik í ellefu daga. Í gær vorum við komin á þá skoðuna að þetta væri fullmikið. Ég var reyndar að vinna alla helgina þannig að Rósa fór með Sif á læknavaktina í gær. Þar var ákveðið að setja hana á sýklalyf (fjórða sinn sem hún fer á slík lyf) þar sem hún gat greinilega ekki unnið á sýkingunni sjálf. Næsta skref er svo að panta tíma hjá háls,- nef- og eyrnalækni sem vonandi finnur einhverja varanlega lausn á þessu. Hóstinn hefur aukist hjá Sif um helgina en hitinn virðist hins vegar vera að minnka.

Það eru óneitanlega viðbrigði að eiga barn sem er svona mikið veikt því að Líf veiktist nánast aldrei og var algjört draumabarn að þessu leyti (og var reyndar líka miklu rólegra barn en Sif, en það er annað mál). Þetta hefur verið töluvert púsl, en vaktavinnan mín hefur reyndar hjálpað til þar sem Rósa hefur síður þurft að missa úr vinnu og svo hef ég líka getað verið heima aðeins fram eftir morgni þegar ég á að vera á vakt.

Þetta eru semsagt búnir að vera erfiðir dagar upp á síðkastið. En svo þegar maður fer inn á bloggsíður á borð við þessa og þessa þá skammast maður sín fyrir að kvarta yfir svona smámunum þegar fullt af fólki er í mun verri stöðu en maður sjálfur.


Sérvalin veikindi

Nú er Sif aftur komin á sýklalyf - í þriðja skiptið alls. Hún hafði verið með ljótan hósta í nótt og eftir hádegið hringdi dagmamman og tilkynnti að barnið væri komið með hita. Það reyndist rétt - hún er með ríflega 38 stiga hita. Rósa fór með hana til læknis og þar kom í ljós að kvefið var komið í annað lungað og því var hún sett beint á sýklalyf.

Þetta er í fjórða sinn sem ég man eftir Sif það veikri að við höfum þurft að halda henni inni. Í tvö skipti var ég í fæðingarorlofi (nóvember og janúar). Sem var í raun besta mál, því þá gat ég tekið fullan þátt í að sinna henni í veikindunum.

Í hin tvö skiptin hef ég hins vegar verið í Liverpool. Sif var nefnilega veik í september þegar ég fór á leikinn gegn Tottenham. Og nú tekur hún upp á því að veikjast daginn áður en ég fer til Liverpool að sjá leikinn gegn Everton. Það er öllu verra og það er slæm tilfinning að þurfa að skilja Rósu eftir eina til að annast Sif í þessum veikindum.

Ég vona bara að hún verði fljót að jafna sig og geti jafnvel farið til dagmömmunnar á mánudaginn. En það er hins vegar best að gera sér ekki of miklar vonir.


Snjór

Það er snjóvesen í innkeyrslunni við fjölbýlið sem ég bý í. Fyrir nokkrum dögum skóf í stóran skafl við bílastæðið fyrir framan íbúðina mína og svo harðnaði snjórinn þannig að nú er illfær skafl í stæðinu. Það tókst að koma station-bílnum okkar úr úr stæðinu en minni bíllinn hefur ekki verið hreyfður. Það sem Sif hefur verið veik þessa vikuna og ekkert farið til dagmömmunnar hefur ekkert þurft að hreyfa þennan bíl svo að hann er því látinn vera þar.

Þar sem ekki hefur verið mikið um snjóþyngsli síðustu árin hafa þetta verið nokkur viðbrigði. En í það minnsta hefur bærinn staðið sig ágætlega í að moka snjóinn af götunum, ólíkt því sem var fyrr í vetur.

Heilsufar Sifjar hefur hins vegar haft áhrif á aðlögun hennar hjá dagmömmunni en hún hefur ekki verið hjá henni síðan á föstudaginn var og fer ekki aftur til hennar fyrr en eftir helgi þar sem hún var með hita í dag. Hvaða áhrif þetta hefur á aðlögunina veit ég ekki. En vonandi verða þau engin.

Já, svona er hægt að tengja eina fblöggfærslu úr snjóþyngslum í dagmömmuvist dótturinnar!


Ferð bókuð um páskana

Þá er búið að bóka ferð til Flórída um páskana. Við fjölskyldan fórum síðast (og reyndar í fyrsta skiptið) þangað fyrir tveimur árum og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað það er gott að vera þarna, svona miðað við ýmislegt sem gengur á í Bandaríkjunum. Nú verður þetta nokkuð öðruvísi en þá þar sem Sif er komin til sögunnar, en vonandi þolir hún ferðalagið sæmilega. Það er líka ágæt tilhugsun að fá smá sól svona áður en sumarið byrjar á Íslandi - en reyndar eru einnig plön um utanlandsferðir í sumar sem vonandi ganga eftir.


Aðlögun

Sif, yngri dóttir mín, sem verður eins árs í lok mánaðarins, byrjaði í gær í aðlögun hjá dagmömmu, sem er auðvitað stórt skref í lífi barns (og kannski enn stærra hjá foreldrum). Nú verður hún semsagt tekin í smáum skrefum þar til hún er tilbúin til að vera allan daginn.

Okkur Rósu hefur fundist Sif vera orðin tilbúin til að fara að leika sér við önnur börn og vonandi mun þessi aðlögun ganga eins og hún á að ganga. Það skemmtilega við þessa dagmömmu sem hún er hjá (sem eru reyndar mæðgur) er að það eru tíu börn hjá  henni - allt stelpur. Ætli það sé gott eða slæmt fyrir barnið?


Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 22
  • Sl. sólarhring: 23
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 332

Annað

  • Innlit í dag: 22
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 22
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband