Konur og RÚV

Loksins þegar ég sest við bloggið er tilefnið skrítin frétt í DV í dag um að konur tolli ekki á RÚV. Þá kemur fram gagnrýni í greininni um að stjórnendur vilji ekki konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir.

Fyrst eru taldar upp þrjár konur sem hafa sagt starfi sínu lausu eða eru á leið frá stofnuninni - Ólöf Rún Skúladóttir, Anna Kristín Jónsdóttir og Hjördís Finnbogadóttir. Það er rétt að Ólöf Rún hefur sagt upp fastri stöðu sinni á fréttastofunni. Anna Kristín og Hjördís hafa hins vegar ekki unnið á fréttastofunni um nokkuð langt skeið (eins og reyndar kemur óljóst fram í greininni) en hafa séð saman um þáttinn Vikulokin. Þær eru í raun núna eins og hverjir aðrir verktakar, þannig að ég er ekki alveg að skilja af hverju þær eru í þessari upptalningu. Björg Eva virðist einhverra hluta vegna samt staðfesta þetta og segir í greininni: "Útvarpið má illa við því að þrjár fréttakonur hætti nú störfum." Það eru ekki þrjár fréttakonur að hætta - aðeins ein.

Síðan eru taldar upp nokkrar konur sem hætt hafa störfum. Eina þeirra þekki ég reyndar ekki, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Björg Eva Erlendsdóttir hætti vegna ósættis. En hvað varðar hinar konurnar sem eru taldar upp þá varð Valgerður Jóhannsdóttir varafréttastjóri Sjónvarpsins og Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður á Sjónvarpinu (semsagt, starfa ennþá á stofnuninni). Sigríður Árnadóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fóru til Stöðvar 2 og Sigrún Björnsdóttir til Háskóla Íslands. Ég hef ekki heyrt um neitt ósætti við sína vinnuveitendur hjá þessu fólki.

Í greininni er jafnframt talað við Önnu Kristínu og Hjördísi, sem lýsa yfir miklum áhyggjum með hvað konum sé að fækka og Anna Kristín gefur það meira að segja í skyn að stjórnendur hafi engan áhuga á að hafa konur á miðjum aldri í vinnu. Þær virðast hins vegar ekki hafa verið spurðar að því sjálfar af hverju þær hættu störfum. Þær hljóta að geta ályktað út frá eigin starfslokum af hverju þær telja að ástandið sé svona.

Og ef stjórnendur eru svona mikið á móti konum á miðjum aldri, af hverju var þá Guðrún Frímannsdóttir ráðin til starfa á útvarpinu í vor? Og af hverju var Bergljót Baldursdóttir gerð að varafréttastjóra?

Síðan er látið eins og engir karlmenn hafi hætt störfum á fréttastofunni á síðustu tíu árum. En þar er nóg að nefna fólk á borð við Jón Baldvin Halldórsson, Kára Jónasson, Jóhann Hauksson, Ara Sigvaldason, Ólaf Teit Guðnason, Jóhannes Bjarna Guðmundsson, Kristján Kristjánsson, Svavar Halldórsson og Guðjón Helgason. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum. Þetta fólk er kannski ekki nógu gamalt (fyrir utan Jón Baldvin, Kára og Jóhann) til að komast í umfjöllunina hjá DV.

Síðan hafa margar hæfar konur verið ráðnar á fréttastofuna upp á síðkastið, eins og fyrrnefnd Guðrún, Kristín Sigurðardóttir og Áslaug Skúladóttir, svo einhverjar séu nefndar. Og ég veit að núverandi fréttastjóri hefur lagt áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni.

Það sem gerir þessa grein svo endanlega þannig að ekki er hægt að taka hana trúanlega er að í undirfyrirsögninni stendur. "Stjórnendur hennar [þ.e. Fréttastofu Útvarpsins] eru gagnrýndir fyrir að vilja ekki hafa konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir." Í greininni er hins vegar haft eftir Hjördísi Finnbogadóttur: "Konur fá síður framgang í starfi innan stofnunarinnar, sem á reyndar við í fjölmiðlum almennt, og oft virðist það vera tilhneiging hjá karkynsstjórnendum að vilja ekki vera með konur sem eru faglega jafngóðar eða betri en þeir." (leturbreyting er mín). Semsagt, Hjördís segir þetta eiga við almennt í fjölmiðlum, ekki bara um Ríkisútvarpið.

Ég held reyndar að þetta sem Hjördís bendir á sé lykilatriði. Ef konur fá ekki sömu möguleika á framgangi í starfi og karlar þarf að taka á því. En að fara að taka RÚV sérstaklega fyrir í þessu samhengi er fáránlegt, einkum í ljósi þess að núverandi fréttastjóri hefur lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni. 

Þá má kannski benda á að hjá Stöð 2 hafa fjölmargar konur hætt á síðustu árum, t.d. Elín Hirst, Ólöf Rún Skúladóttir, Hulda Gunnarsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Þóra Arnórsdóttir, Sigríður Árnadóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Telma Tómasson, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, Helga Guðrún Johnson og þannig gæti ég haldið lengi áfram. Ætli DV eigi eftir að slá því upp á forsíðunni á morgun?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 7
  • Sl. sólarhring: 29
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 340

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband