Færsluflokkur: Enski boltinn

Nýju mennirnir lofa góðu

Mikið er ég ánægður með það sem nýju mennirnir okkar sýndu í þessum leik. Benítez hefur alveg verið á réttri hillu í þessum kaupum í sumar. Voronin er að koma skemmtilega á óvart og það verður erfitt að horfa framhjá honum ef hann heldur svona áfram.

Ég var líka sérstaklega ánægður með Jermaine Pennant í þessum leik. Hann lék aðeins fyrri hálfleikinn en átti algjöran stjörnuleik. Það verður alvöru samkeppni á hægri kantinum - nokkuð sem við höfum ekki átt að venjast síðustu árin.

Þeir sem fyrir eru þurfa hins vegar að herða sig og ég hef trú á því að þeir geri það áður en mótið hefst. Nú þurfum við að gera alvarlega atlögu að titlinum.


mbl.is Voronin með tvö mörk í sigri Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær helgi

Hef haft lítið að segja upp á síðkastið. En nú er tilefnið ærið.

Um helgina var hér í heimsókn Ron Yeats, sem var fyrirliði Liverpool á árunum 1961-71. Hann var mikill varnarjaxl en í heimsókninni kom líka í ljós að þetta er frábær náungi.

Á árshátíð Liverpoolklúbbsins á laugardagskvöldið kom hann upp og sagði nokkrar sögur. Og hann fór gjörsamlega á kostum. Sagan af fyrsta leik hans sem atvinnumanns í knattspyrnu, þegar hann lék með Dundee United, var hreint og beint stórkostleg og verður væntanlega hægt að lesa hana í næsta tölublaði Rauða hersins, tímariti Liverpoolklúbbsins, í júní.

Svo komu einnig nokkrar óborganlegar sögur af Bill Shankly.

Nokkrir KR-ingar sem léku gegn honum árið 1964 þegar Liverpool og KR léku sinn fyrsta Evrópuleik fengu einnig að hitta hann. Þar var einnig ýmislegt rifjað upp og gaman að þeir skildu hafa fengið tækifæri til að hitta hann.

Það er Liverpoolklúbbnum mikill heiður að hafa fengið þennan snilling í heimsókn.


Kostir og gallar

Það hefur bæði kosti og galla að Peter Crouch verði frá næstu vikurnar.

Við missum ákveðið vopn þó að hann hafi ekki beint verið fastamaður í síðustu leikjum. Hæð hans skapar alltaf hættu og skapar hinum framherjunum möguleika.

Með þessu skapast hins vegar pláss fyrir Robbie Fowler í hópnum. Og kannski fær hann þá að spila sig í sitt besta form.

Það verður gaman að sjá hvernig Fowler mun nýta aukna sénsa.


mbl.is Crouch frá keppni næstu vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sælutilfinning

Hvaða leið er betri til að slá á allar neikvæðar raddir en að verða fyrsta liðið í rúmt ár til að vinna Barcelona á þeirra eigin heimavelli?

Ég er nú ekki farinn að fagna strax, Barcelona-menn eru ansi líklegir til að skora á Anfield, en ég held að Benítez geri mönnum líka grein fyrir því að þetta sé langt í frá búið.

Svo er það ekki síður sögulegt að John Arne Riise skori svona glæsilegt mark með HÆGRI!

Vil einnig þakka þeim sem voru á Players í gærkvöldi. Stemningin var hreint stórkostleg.

Bara að menn verði svo ekki með allt niður um sig gegn Sheffield United um helgina!


mbl.is Frækinn sigur Liverpool á Camp Nou
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull og aftur bull

Af hverju er Mogginn að taka upp frétt um þetta Liverpool-mál, sem birtist fyrst í Daily Mirror? Ég hélt að menn vissu að það væri ekkert sérstaklega áreiðanlegur miðill.

Áreiðanlegasti miðillinn um það sem er að gerast hjá Liverpool hefur alltaf verið Liverpool Echo. Og þá einkum greinar Chris Bascombe. Hann skrifar þessa grein um málið í gær. Gríp hér niður í smákafla í greininni.

The Spanish manager has no intention of discussing the matter publicly, other than yesterday’s brief announcement confirming all those in breach of discipline will be hit in the pocket. That’s believed to be as many as six players.

He won’t be immediately kicking anyone out of his squad either, although it is inevitable the long-term futures of certain players must now be under a cloud.

Hér er semsagt talað um sex leikmenn. Þá er einnig sagt að deilurnar milli Riise og Bellamy hafi ekki verið nærri eins miklar og fjölmiðlar hafa gefið í skyn. Jafnvel hafi atburðarrásins í kjölfar atviksins vakið samúð með Bellamy þar sem hann er gerður að einhvers konar blóraböggli.

Þá kemur líka fram að Benítez sé brjálaður yfir því að fjölmiðlar hafi komist að þessu. Veist samt ekki hvort að hjá því hefði nokkuð verið komist.

En það er í það minnsta ljóst að fimmtán leikmenn er orðum aukið. Benítez tók hins vegar á málunum eins og á að gera - og notar þetta atvik jafnframt til að mótívera leikmenn sína fyrir Barcelona-leikinn á morgun. Sem er auðvitað það eina rétta í stöðunni.


mbl.is Benítez sagður hafa sektað 15 leikmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í gangi?

Þessi frétt virðist bera með sér að eitthvað hafi farið úr böndunum í gleðskap Liverpool-leikmanna í Portúgal. Ég ákvað að skoða þetta aðeins.

Þessi frétt er fengin úr portúgölsku dagblaði. Nokkrir enskir miðlar hafa tekið þetta upp. Ég hef reyndar hvergi séð neitt um Bellamy og golfkylfuna en þær fréttir sem ég hef séð hljóma svona:

Liðið fer saman út að borða og fer svo á bar. Benítez er ekki viðstaddur, hann er staddur í einhverjum öðrum bæ í nágrenninu. Menn fá sér aðeins of mikið neðan í því og menn gerast uppivöðslusamir. Steven Gerrard og Peter Crouch reyna að skakka leikinn en lögreglan er kölluð til. Bareigandinn biður liðið að fara, sem það og gerir. En þegar komið er á hótelið brjótast út slagsmál og eru aðalmennirnir í þeim Jerzy Dudek, Robbie Fowler og Jermaine Pennant. Dudek var um tíma settur í handjárn til að róa hann. Enginn er handtekinn. Það eina sem skemmist er glas sem brotnar og hefur Liverpool boðist til að borga fyrir allar skemmdir. Í einum miðlinum er haft eftir talsmanni Liverpool að tekið verði á málinu innanhúss. Þannig hefur það reyndar alltaf verið hjá Liverpool.

Ég ætla ekki að hafa of háleitar skoðanir á frétt sem birst hefur á einu portúgölskum fjölmiðli. En eitthvað hlýtur samt að hafa gerst og það er slæmt. Sérstaklega er slæmt ef Jermaine Pennant ætlar að þakka fyrir tækifærið sem Benítez gaf honum til að bjarga ferlinum með þessum hætti.

En sjáum hvað fréttist frekar af þessu atviki.


mbl.is Bellamy lamdi Riise með golkylfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn frá Liverpool

Fyrir utan úrslitin í leik Liverpool og Everton var ferðin til Liverpool hin skemmtilegasta. Fyrirfram höfðu menn áhyggjur af að þetta yrði mikil djammferð, enda nánast eingöngu karlmenn í ferðinni. En ekkert vesen var á mönnum og það mæddi mun minna á mér sem fararstjóra í þessari ferð heldur en ferðinni á Tottenham-leikinn í haust, þar sem ýmislegt kom upp.

 Ég kom heim á mánudagskvöldið en hafði fyrr um daginn frétt að líklega yrði tilkynnt um kaup Gillette á félaginu daginn eftir. Ég skynjaði mismunandi skoðanir á þessu. Samanburðurinn á þessu og kaupum Malcolms Glazier á Man. Utd. er þó ekki alveg réttmætur þar sem Glazier skuldsetti klúbbinn, ólíkt því sem Gilette er að gera. En það sem er óljóst er hversu mikil hollustan verður við félagið hjá þessum nýju eigendum. Eiga þeir hugsanlega eftir að selja félagið eftir nokkur ár bara til að græða á því? Ég vona ekki. Og vonandi verða líka til nægir fjármunir til að kaupa stór nöfn í boltanum.


Verðum við loksins samkeppnishæfir?

Jæja, þá er það loksins að verða að veruleika að fjármunir eru á leið í Liverpool. Þetta þýðir að Liverpool verður loksins samkeppnisfært um að kaupa bestu leikmennina á markaðnum. Þetta gæti orðið upphafið að því að við náum loksins langþráðum Englandsmeistaratitli.

Benítez er nýlega búinn að tala um það að hann hafi ekki getað keypt leikmenn sem hann hafi verið á höttunum eftir því að þeir kostuðu of mikið. Eftir þetta ætti það ekki að vera vandamál lengur.

Ég er afar kátur núna!


mbl.is Allar líkur á að emírinn í Dubai eignist Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steinrunninn á Players

Ég sast nánast sem steinrunninn á Players í gærkvöldi þegar ég sá mína menn kjöldregna af unglingaliði Arsenal. Vissulega voru nokkrir varamenn í liði minna manna en engu að síður er fáránlegt að fá á sig sex mörk á móti þessu liði.

En eins og í fyrri leiknum var það varnarleikurinn sem varð okkur að falli og þegar andstæðingurinn skorar sex mörk í sjö tilraunum segir það sitt um hver varnarleikurinn er.

Ætla ekki að fara nánar út í frammistöðu einstakra leikmanna og vil helst gleyma þessum leik sem fyrst.


Tap á mistökum

Tap minna manna gegn Arsenal í gær var sorglegt. Það er ferlegt að stjórna leiknum, sækja mun stífar en andstæðingurinn en ná ekki að skapa sér nógu mikið af almennilegum færum. Síðan er þetta allt skemmt með barnalegum mistökum í vörninni.

Í fyrsta markinu var Riise gjörsamlega úti á þekju, fyrst með því að tapa boltanum á miðjunni og síðan með því að missa sjónar á manninum sem hann átti að dekka. Í öðru markinu gerði öll vörnin sig seka um að horfa á Rosicky leika sér með boltann og skjóta og í þriðja markinu gerir Carragher ótrúleg mistök á móti besta framherjanum í enska boltanum. Þetta er mjög ólíkt vörn Liverpool en þessi mistök voru okkur svakalega dýr.

Nú er bara að koma fram hefndum gegn þeim á þriðjudag - þó að ég hefði frekar viljað halda áfram í þessari keppni en deildarbikarnum.


Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 24
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 334

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 29
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband