Tónlist af handahófi

Fyrir nokkru var í gangi trend í bloggheimum þar sem menn áttu að spila tíu lög af handahófi af mp3-spilaranum sínum og segja frá lögunum.

Þar sem ég er búinn að koma öllu tónlistarsafni heimilisins inn í ipodinn minn fyrir utan diska sem Líf á, en safnið samanstendur af alls 7.320 lögum, ætla ég að reyna þetta núna, og hyggst gera þetta nokkuð reglulega hér á síðunni. Tekið skal þó fram áður en ég byrja að þarna eru lög af diskum Rósu, hluti af barnalögum í eigu Lífar og jólalög, þannig að það eru ekki öll lög þarna inni að mínu skapi né eiga heima í eyrum landsmanna á þessum árstíma.

En hér koma fyrstu tíu lögin þegar ipodin er settur á Shuffle.

1. Duran Duran: None of the above. Af Wedding Album.

Kannast mjög lítið við þetta lag og finnst það reyndar frekar leiðinlegt. Það eru allavega mörg Duran Duran lög sem ég hefði frekar viljað fá en þetta. Samhengislaus fimm mínútna steypa. Ekkert meira um það að segja.

2. Connie Francis: Who's Sorry Now. Af safndisknum Music 4 you.

Þar sem ég fíla vel gamla (eða gamaldags) tónlist finnst mér þetta lag fínt. Ein af þessum gömlu góðu ballöðum sem manni líður alltaf vel þegar maður hlustar á. Ef mig misminnir ekki varð þetta lag þekkt fyrir nokkuð mörgum árum hér á landi þegar það var notað í sjónvarpsauglýsingu um Tópas. Þarf stundum ekki meira til :)

3. Dikta: Flies Don't Tell: Af plötunni Hunting for Happiness.

Þetta er diskur sem mér áskotnaðist eftir að ég tók viðtal við þessa hljómsveit, sem er úr Garðabæ, fyrir Víkurfréttir. Hef ekki mikið hlustað á diskinn en þó heyrt eitt og eitt lag. Þetta er hið ágætasta rokk og strákarnir virðast vel spilandi. Mér skilst að hægt sé að kaupa afurð þeirra á Itunes og mig minnir líka að þeir hafi hugað á einhverja landvinninga. Veit ekki hvort það hafi tekist eða hvort þeir eru ennþá að vinna í því. En það hefur margt verra en þetta notið alþjóðlegrar hylli.

4. Bítlanir: A Hard Day's Night. Af safndiski þeirra fyrir árin 1962-66 (þeim rauða tvöfalda).

Þetta er náttúrulega klassískt og margir mér fróðari um Bítlana gætu sagt meira um þetta lag. Bítlarnir eiga auðvitað mörg snilldarlög og þetta er eitt þeirra. Mér líður reyndar stundum oft sjálfum eins og textinn lýsir eftir langan vinnudag.

5. Bing Crosby: Santa Claus is coming to town. Af plötunni Christmas with Bing Crosby.

Það fór þó aldrei svo að jólalag kæmi ekki upp í spilaranum! En Bing Crosby er náttúrulega kóngur jólalaganna. Fer annars ekkert frekar út í slíkar pælingar núna í mars.

6. Stockard Channing: There are worse things I could do. Af plötunni Grease.

Ég heyrði þetta lag, ásamt reyndar flestum öðrum lögum úr Grease, áður en ég svo sá myndina. Pældi aldrei þannig í textanum þannig að hann væri sunginn af stelpu sem hefði, jahh, sofið nokkuð oft hjá. Sá svo íslensku útgáfuna af þessu með Birgittu og Jónsa í aðalhlutverki, en þar fór Unnur Ösp með þetta tiltekna hlutverk, og gerði það gríðarlega vel. Jafnvel betur en Stockard Channing.

7. Spain: Untitled #1: Af plötunni Definitivt Bear Nr. 2-96.

Um þetta veit ég nákvæmlega ekki neitt. Þetta er eitt af því sem Rósa kom með í safnið og mér hefur einhvern veginn aldrei dottið í hug að hlusta á þetta. Það er samt ágætur taktur í þessu þó að þetta sé lag í rólegri kantinum. Hef að öðru leyti ekkert um þetta að segja.

8. Count Basie: I'm shouting again. Af plötunni Compact Jazz - Count Basie:

Fínt að það kom einhver djass inn í þetta. Count Basie er með betri bigböndum sem ég hlusta á. Þetta tiltekna lag er reyndar ekki í neinu sérstöku uppáhaldi. Kraftmikið og fjörugt en grípur mig samt ekki sérstaklega.

9. Bergsveinn: True colors. Af plötunni September.

Þetta var ein af þeim plötum sem kom mér á óvart þegar ég hlustaði á hana. Hún er merkilega góð miðað við margar aðrar cover-plötur sem íslenskir tónlistarmenn hafa gefið út. Miðað við hvað Cindy Lauper hefur sett sérstakan karakter á þetta lag finnst mér Bergsveinn fara mjög vel með þetta lag, sem og reyndar flest önnur lög á þessum diski.

10. Ethan Hawk: I'm Nuthin'. Af plötunni Reality Bites.

Þetta er annar diskur sem Rósa lagði til heimilisins. En þegar ég renndi yfir hann fannst mér merkilegt hvað eru mörg góð lög úr þessari mynd. Mér finnst þetta lag reyndar ekki eitt þeirra, það höfðar ekki sérstaklega til mín. Ég hef reyndar ekki séð myndina - kannski tími til kominn að taka hana á leigu.

Dettur kannski í hug að gera þetta aftur eftir einhverjar vikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 430

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband