Þriðjudagur, 20. febrúar 2007
Bull og aftur bull
Af hverju er Mogginn að taka upp frétt um þetta Liverpool-mál, sem birtist fyrst í Daily Mirror? Ég hélt að menn vissu að það væri ekkert sérstaklega áreiðanlegur miðill.
Áreiðanlegasti miðillinn um það sem er að gerast hjá Liverpool hefur alltaf verið Liverpool Echo. Og þá einkum greinar Chris Bascombe. Hann skrifar þessa grein um málið í gær. Gríp hér niður í smákafla í greininni.
The Spanish manager has no intention of discussing the matter publicly, other than yesterdays brief announcement confirming all those in breach of discipline will be hit in the pocket. Thats believed to be as many as six players.
He wont be immediately kicking anyone out of his squad either, although it is inevitable the long-term futures of certain players must now be under a cloud.
Hér er semsagt talað um sex leikmenn. Þá er einnig sagt að deilurnar milli Riise og Bellamy hafi ekki verið nærri eins miklar og fjölmiðlar hafa gefið í skyn. Jafnvel hafi atburðarrásins í kjölfar atviksins vakið samúð með Bellamy þar sem hann er gerður að einhvers konar blóraböggli.
Þá kemur líka fram að Benítez sé brjálaður yfir því að fjölmiðlar hafi komist að þessu. Veist samt ekki hvort að hjá því hefði nokkuð verið komist.
En það er í það minnsta ljóst að fimmtán leikmenn er orðum aukið. Benítez tók hins vegar á málunum eins og á að gera - og notar þetta atvik jafnframt til að mótívera leikmenn sína fyrir Barcelona-leikinn á morgun. Sem er auðvitað það eina rétta í stöðunni.
Benítez sagður hafa sektað 15 leikmenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Hvað er í gangi?
Þessi frétt virðist bera með sér að eitthvað hafi farið úr böndunum í gleðskap Liverpool-leikmanna í Portúgal. Ég ákvað að skoða þetta aðeins.
Þessi frétt er fengin úr portúgölsku dagblaði. Nokkrir enskir miðlar hafa tekið þetta upp. Ég hef reyndar hvergi séð neitt um Bellamy og golfkylfuna en þær fréttir sem ég hef séð hljóma svona:
Liðið fer saman út að borða og fer svo á bar. Benítez er ekki viðstaddur, hann er staddur í einhverjum öðrum bæ í nágrenninu. Menn fá sér aðeins of mikið neðan í því og menn gerast uppivöðslusamir. Steven Gerrard og Peter Crouch reyna að skakka leikinn en lögreglan er kölluð til. Bareigandinn biður liðið að fara, sem það og gerir. En þegar komið er á hótelið brjótast út slagsmál og eru aðalmennirnir í þeim Jerzy Dudek, Robbie Fowler og Jermaine Pennant. Dudek var um tíma settur í handjárn til að róa hann. Enginn er handtekinn. Það eina sem skemmist er glas sem brotnar og hefur Liverpool boðist til að borga fyrir allar skemmdir. Í einum miðlinum er haft eftir talsmanni Liverpool að tekið verði á málinu innanhúss. Þannig hefur það reyndar alltaf verið hjá Liverpool.
Ég ætla ekki að hafa of háleitar skoðanir á frétt sem birst hefur á einu portúgölskum fjölmiðli. En eitthvað hlýtur samt að hafa gerst og það er slæmt. Sérstaklega er slæmt ef Jermaine Pennant ætlar að þakka fyrir tækifærið sem Benítez gaf honum til að bjarga ferlinum með þessum hætti.
En sjáum hvað fréttist frekar af þessu atviki.
Bellamy lamdi Riise með golkylfu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Enski boltinn | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 17. febrúar 2007
Ein lausn á vandamáli skapar annað vandamál
Mikið svakalega var ég ánægður með þessi úrslit í Eurovision.
Ég var búinn að segja fyrir keppnina að við værum líklegastir til að ná árangri með Eiríki Haukssyni. Uppskar ég fyrir það háðsglósur frá minni heittelskuðu: "Hver heldur að kjósi hálf fimmtugan rokkara til að keppa?" Þess ber að geta að hún sat sjálf heilu dagana inni í herbergi hjá sér hlustandi á Gaggó Vest fyrir 20 árum eða þar um bil. Það var greinilegt að einhverjir sáu ástæðu til að kjósa hann.
Það kom mér hins vegar á óvart að hvorki Jónsi né Heiða komust í topp þrjá. Hvort tveggja fín lög. Þessi keppni hafði þó þann kost umfram keppnina í fyrra að fyrirfram var enginn augljós sigurvegari - það voru nokkrir sem komu til greina. Í fyrra var vitað fyrirfram að Silvía Nótt myndi vinna keppnina þó að ég hafi alls ekki verið þeirrar skoðunar að það væri besta lagið. Þegar á heildina er litið fannst mér lögin samt betri í fyrra en í ár.
En ég held að Eiríkur eigi eftir að koma okkur upp úr forkeppninni - en það hélt ég reyndar líka á sínum tíma þegar Selma fór út með If I had your love. Ég stend samt við þetta.
En þegar búið er að leysa þetta mál og við búin að velja frambærilegt lag í keppnina kemur nýtt vandamál - hver verður fulltrúi Íslands meðal hinna norrænu Eurovision-sérfræðinga? Augljósasti kandídatinn væri náttúrulega Páll Óskar en ég veit ekki hversu slarkfær hann er í Norðurlandamálum. Það verður spennandi að sjá hver fær þetta hlutverk.
Eiríkur Hauksson verður fulltrúi Íslands í Helsinki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. febrúar 2007
Viðtal sem aldrei var tekið
Nokkur umræða hefur verið um blaðamanninn sem vitnaði í Steingrím Hermannsson í fréttum í DV og Vísi án þess að ná nokkurn tíma tali af honum. Ég var reyndar dálítið hissa á að Blaðið skuli hafa séð ástæðu til að slá þessu upp (mér fannst þetta engin forsíðufrétt þó að þetta væri ágætis frétt) og það rýrir frammistöðu blaðsins enn frekar að vitna ekki til þess að maðurinn skuli viðurkenna þetta á bloggsíðu sinni eins og Jón Axel Ólafsson bendir á.
Einu sinni tók ég reyndar viðtal án þess að tala nokkurn tíma við viðkomandi. Þegar ég var á Bændablaðinu var mér falið að taka viðtal við kvikmyndagerðarmann sem vildi gera heimildarmynd um íslenskan landbúnað. Með verkinu fékk ég blaðabunka sem reyndist afrit af gögnum sem kvikmyndagerðarmaðurinn hafði sent Kvikmyndasjóði eins og hann hét þá til að sækja um styrk fyrir verkinu. Lagði yfirmaður minn til að ég setti saman viðtal úr því sem þar kæmi fram. Ég gerði það, sendi síðan kvikmyndagerðarmanninum afrit af textanum og hann var hinn sáttasti við hann. Grundvallarmunurinn er auðvitað sá að viðmælandinn sá hvað ég ætlaði að skrifa, öfugt við Steingrím.
En þetta eru þó alltaf óásættanleg vinnubrögð. Maður tekur þó stundum í starfi sínu við fjölmiðla viðtöl sem maður veit fyrirfram hvernig eru og veit fyrirfram hvernig er svarað. En það réttlætir ekki svona vinnubrögð. Það merkilega er hins vegar að Steingrímur skyldi aldrei sjá ástæðu til að kvarta yfir því sem blaðamaðurinn gerði - fyrr en núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. febrúar 2007
Enn sérvalin veikindi
Það á ekki af Sif að ganga - hún er aftur komin með hita. Vonast þó til að ástæðan nú sé heiftarlegir tanntökuverkir. Í þetta sinn hafði hún þó vit á því að verða veik þegar ég var ekki aðeins á landinu, heldur meira að segja í vaktafríi. Maður vill nefnilega helst vera hjá börnum sínum þegar þau eru veik. Nú er hins vegar tækifærið til að standa við stóru orðin í síðustu færslu og leyfa henni að hlusta á uppáhaldstónlist pabba síns!
Vikan í vinnunni hefur annars farið í Baugsmálið, og ég held að það hafi bara aldrei gerst síðan ég byrjaði að vinna í blaða- og fréttamennsku, að ég hafi fjallað um sama málið í heila viku. Mér finnst samt mjög gott að vera orðinn mun betur inni í þessu máli en áður, þó að angar þess séu það margir að það sé ekki auðvelt að setja sig inn í þá alla.
Og nú tekur við að setja saman Liverpool-blað fyrir mánaðamótin. Sem er að sjálfsögðu stórskemmtileg vinna!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. febrúar 2007
Stóra systir spillir litlu systur
Líf, eldri dóttir mín, er byrjuð í stelputónlistinni. Hún á meðal annars heilan fjórtán laga disk með lögum sem eiga að vera sungin af Bratz-dúkkunum. Líf er mikið fyrir Bratz, eiginlega svo mikið að ég veit ekkki hvernig Bratz-framleiðandinn myndi fara að án hennar.
Fyrir nokkrum dögum voru systurnar Líf og Sif (sem er nýorðin eins árs) að leika sér saman í herbergi Lífar. Það er auðvitað frábært og Líf er ótrúlega dugleg að leika við hana. En heldur leist mér illa á blikuna þegar Líf kallaði svo á mig inn í herbergið og sagði: "Pabbi, komdu og sjáðu!" Þegar ég lít inn í herbergið setur Líf eitt af lögunum af Bratz-disknum á. Sif varð eitt bros, dillaði rassinum fram og aftur og sneri sér nokkrum sinnum í hringi. Það var semsagt dansað að innlifun.
Til að Sif fari ekki sömu leið og Líf í tónlistarsmekk er ljóst að ég verð að grípa inn í. Hér eftir mun ég spila reglulega fyrir hana Billy Joel, Dire Straits og Trúbrot, og svo fær hún líka að heyra djass á borð við Stan Getz, Dexter Gordon, Yellow Jackets og Weather Report.
Ég hlakka til að sjá hvort hún muni dilla sér jafn mikið við þá tónlist.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 7. febrúar 2007
Nýja fréttastefið
Nýtt fréttastef Fréttastofu Útvarpsins hefur vakið athygli og fengið mikla umfjöllun. Flestir hafa þó verið heldur neikvæðir. Björn Ingi Hrafnsson hefur til dæmis skrifað opið bréf til Óðins Jónssonar fréttastjóra um að stefinu verði breytt til baka og einhverjir fleiri sem hafa hringt inn á fréttastofu hafa tekið undir það.
Það var alveg viðbúið að þegar skipt var um stef yrðu viðbrögðin blendin, enda fólk búið að venjast saman kvöldfréttastefinu í 25 ár auk þess sem hljóðmerkið á undan stuttu fréttunum hafði verið ansi lengi. Það mun hins vegar aldrei koma í ljós fyrr en eftir nokkrar vikur, jafnvel mánuði, hvernig breytingin tekst til. Þetta fréttastef á eftir að venjast, og þegar menn hafa haft tækifæri til þess þá er rétt að spyrja að því hvernig til hefur tekist.
Það er líka rétt að benda á að einn af megintilganginum með þessu var að allir fréttatímar Útvarpsins hefðu sama auðkennið. Áður var þetta þannig að styttri fréttatímarnir höfðu einhvers konar klukkuspilshljóðmerki, ekkert stef var á undan hádegisfréttunum og stef Atla Heimis var svo á undan kvöldfréttunum. Og fyrst ákveðið var að reyna að hafa sama auðkennið var langbesta leiðin að gera nýtt stef.
Ég get hins vegar sagt fyrir mig persónulega að ég hef ekki vanist þessu nýja stefi almennilega ennþá. En ég ætla að gefa því einhverjar vikur áður en ég dæmi um hvernig til hefur tekist.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. febrúar 2007
Kominn frá Liverpool
Fyrir utan úrslitin í leik Liverpool og Everton var ferðin til Liverpool hin skemmtilegasta. Fyrirfram höfðu menn áhyggjur af að þetta yrði mikil djammferð, enda nánast eingöngu karlmenn í ferðinni. En ekkert vesen var á mönnum og það mæddi mun minna á mér sem fararstjóra í þessari ferð heldur en ferðinni á Tottenham-leikinn í haust, þar sem ýmislegt kom upp.
Ég kom heim á mánudagskvöldið en hafði fyrr um daginn frétt að líklega yrði tilkynnt um kaup Gillette á félaginu daginn eftir. Ég skynjaði mismunandi skoðanir á þessu. Samanburðurinn á þessu og kaupum Malcolms Glazier á Man. Utd. er þó ekki alveg réttmætur þar sem Glazier skuldsetti klúbbinn, ólíkt því sem Gilette er að gera. En það sem er óljóst er hversu mikil hollustan verður við félagið hjá þessum nýju eigendum. Eiga þeir hugsanlega eftir að selja félagið eftir nokkur ár bara til að græða á því? Ég vona ekki. Og vonandi verða líka til nægir fjármunir til að kaupa stór nöfn í boltanum.
Föstudagur, 2. febrúar 2007
Sérvalin veikindi
Nú er Sif aftur komin á sýklalyf - í þriðja skiptið alls. Hún hafði verið með ljótan hósta í nótt og eftir hádegið hringdi dagmamman og tilkynnti að barnið væri komið með hita. Það reyndist rétt - hún er með ríflega 38 stiga hita. Rósa fór með hana til læknis og þar kom í ljós að kvefið var komið í annað lungað og því var hún sett beint á sýklalyf.
Þetta er í fjórða sinn sem ég man eftir Sif það veikri að við höfum þurft að halda henni inni. Í tvö skipti var ég í fæðingarorlofi (nóvember og janúar). Sem var í raun besta mál, því þá gat ég tekið fullan þátt í að sinna henni í veikindunum.
Í hin tvö skiptin hef ég hins vegar verið í Liverpool. Sif var nefnilega veik í september þegar ég fór á leikinn gegn Tottenham. Og nú tekur hún upp á því að veikjast daginn áður en ég fer til Liverpool að sjá leikinn gegn Everton. Það er öllu verra og það er slæm tilfinning að þurfa að skilja Rósu eftir eina til að annast Sif í þessum veikindum.
Ég vona bara að hún verði fljót að jafna sig og geti jafnvel farið til dagmömmunnar á mánudaginn. En það er hins vegar best að gera sér ekki of miklar vonir.
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Sigurjón og Baugsmálið
Sigurjón M. Egilsson skrifar athyglisverða færslu á heimasíðu sína um umfjöllun um Baugsmálið. Megininntakið í færslunni er að ef Baugur ætti ekki fjölmiðla fjölluðu þeir mun meira og á beittari hátt um Baugsmálið. Reyndar telur Sigurjón það með ólíkindum að ekki sé meira fjallað um þetta mál.
Það með að eignarhaldið hafi áhrif á umfjöllun er afstaða sem er ekki ný af nálinni. En það er athyglisvert að þetta komi frá Sigurjóni, sem var lengi fréttastjóri Fréttablaðsins sem er að stórum hluta í eigu Baugs og tengdra fyrirtækja. Ef maður les milli línanna má draga þá ályktun að Sigurjón hefði staðið fyrir beittari umfjöllun í Fréttablaðinu um Baugsmálið, ef Fréttablaðið hefði ekki verið í eigu Baugs.
Ég hef hins vegar ekki heyrt áður þá afstöðu að of lítið hafi verið fjallað um Baugsmálið. Þvert á móti hefur maður frekar heyrt að fólk hafi fengið upp í kok á þessu máli. Að vísu er könnun Fjölmiðlavaktarinnar um að Baugsmálið hafi verið stærsta fréttamálið að mati Íslendinga kannski ekki alveg í samræmi við það.
Ég vil ekki fullyrða hvort eignarhald hafi haft áhrif á umfjöllun einstakra fjölmiðla um þetta mál. En ætli Sigurjón ætli að standa fyrir beittari umfjöllun um málið í DV?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar