Tónlist af handahófi

Fyrir nokkru var í gangi trend í bloggheimum þar sem menn áttu að spila tíu lög af handahófi af mp3-spilaranum sínum og segja frá lögunum.

Þar sem ég er búinn að koma öllu tónlistarsafni heimilisins inn í ipodinn minn fyrir utan diska sem Líf á, en safnið samanstendur af alls 7.320 lögum, ætla ég að reyna þetta núna, og hyggst gera þetta nokkuð reglulega hér á síðunni. Tekið skal þó fram áður en ég byrja að þarna eru lög af diskum Rósu, hluti af barnalögum í eigu Lífar og jólalög, þannig að það eru ekki öll lög þarna inni að mínu skapi né eiga heima í eyrum landsmanna á þessum árstíma.

En hér koma fyrstu tíu lögin þegar ipodin er settur á Shuffle.

1. Duran Duran: None of the above. Af Wedding Album.

Kannast mjög lítið við þetta lag og finnst það reyndar frekar leiðinlegt. Það eru allavega mörg Duran Duran lög sem ég hefði frekar viljað fá en þetta. Samhengislaus fimm mínútna steypa. Ekkert meira um það að segja.

2. Connie Francis: Who's Sorry Now. Af safndisknum Music 4 you.

Þar sem ég fíla vel gamla (eða gamaldags) tónlist finnst mér þetta lag fínt. Ein af þessum gömlu góðu ballöðum sem manni líður alltaf vel þegar maður hlustar á. Ef mig misminnir ekki varð þetta lag þekkt fyrir nokkuð mörgum árum hér á landi þegar það var notað í sjónvarpsauglýsingu um Tópas. Þarf stundum ekki meira til :)

3. Dikta: Flies Don't Tell: Af plötunni Hunting for Happiness.

Þetta er diskur sem mér áskotnaðist eftir að ég tók viðtal við þessa hljómsveit, sem er úr Garðabæ, fyrir Víkurfréttir. Hef ekki mikið hlustað á diskinn en þó heyrt eitt og eitt lag. Þetta er hið ágætasta rokk og strákarnir virðast vel spilandi. Mér skilst að hægt sé að kaupa afurð þeirra á Itunes og mig minnir líka að þeir hafi hugað á einhverja landvinninga. Veit ekki hvort það hafi tekist eða hvort þeir eru ennþá að vinna í því. En það hefur margt verra en þetta notið alþjóðlegrar hylli.

4. Bítlanir: A Hard Day's Night. Af safndiski þeirra fyrir árin 1962-66 (þeim rauða tvöfalda).

Þetta er náttúrulega klassískt og margir mér fróðari um Bítlana gætu sagt meira um þetta lag. Bítlarnir eiga auðvitað mörg snilldarlög og þetta er eitt þeirra. Mér líður reyndar stundum oft sjálfum eins og textinn lýsir eftir langan vinnudag.

5. Bing Crosby: Santa Claus is coming to town. Af plötunni Christmas with Bing Crosby.

Það fór þó aldrei svo að jólalag kæmi ekki upp í spilaranum! En Bing Crosby er náttúrulega kóngur jólalaganna. Fer annars ekkert frekar út í slíkar pælingar núna í mars.

6. Stockard Channing: There are worse things I could do. Af plötunni Grease.

Ég heyrði þetta lag, ásamt reyndar flestum öðrum lögum úr Grease, áður en ég svo sá myndina. Pældi aldrei þannig í textanum þannig að hann væri sunginn af stelpu sem hefði, jahh, sofið nokkuð oft hjá. Sá svo íslensku útgáfuna af þessu með Birgittu og Jónsa í aðalhlutverki, en þar fór Unnur Ösp með þetta tiltekna hlutverk, og gerði það gríðarlega vel. Jafnvel betur en Stockard Channing.

7. Spain: Untitled #1: Af plötunni Definitivt Bear Nr. 2-96.

Um þetta veit ég nákvæmlega ekki neitt. Þetta er eitt af því sem Rósa kom með í safnið og mér hefur einhvern veginn aldrei dottið í hug að hlusta á þetta. Það er samt ágætur taktur í þessu þó að þetta sé lag í rólegri kantinum. Hef að öðru leyti ekkert um þetta að segja.

8. Count Basie: I'm shouting again. Af plötunni Compact Jazz - Count Basie:

Fínt að það kom einhver djass inn í þetta. Count Basie er með betri bigböndum sem ég hlusta á. Þetta tiltekna lag er reyndar ekki í neinu sérstöku uppáhaldi. Kraftmikið og fjörugt en grípur mig samt ekki sérstaklega.

9. Bergsveinn: True colors. Af plötunni September.

Þetta var ein af þeim plötum sem kom mér á óvart þegar ég hlustaði á hana. Hún er merkilega góð miðað við margar aðrar cover-plötur sem íslenskir tónlistarmenn hafa gefið út. Miðað við hvað Cindy Lauper hefur sett sérstakan karakter á þetta lag finnst mér Bergsveinn fara mjög vel með þetta lag, sem og reyndar flest önnur lög á þessum diski.

10. Ethan Hawk: I'm Nuthin'. Af plötunni Reality Bites.

Þetta er annar diskur sem Rósa lagði til heimilisins. En þegar ég renndi yfir hann fannst mér merkilegt hvað eru mörg góð lög úr þessari mynd. Mér finnst þetta lag reyndar ekki eitt þeirra, það höfðar ekki sérstaklega til mín. Ég hef reyndar ekki séð myndina - kannski tími til kominn að taka hana á leigu.

Dettur kannski í hug að gera þetta aftur eftir einhverjar vikur.


Hljómar enn betur

Var að horfa á myndbandið með Eiríki Hauks. Mér líst svakalega vel á þetta. Breytingarnar hafa tekist vel, myndbandið sýnir mikið af íslensku landslagi sem hefur óskiljanlega lítið verið notað í íslenskum Eurovisionmyndböndum og Eiríkur er enn sami töffarinn. Vona að háraliturinn í myndbandinu skýrist þó af myndvinnslunni en ekki því að hárið hafi verið litað.

Held að við séum á ágætis stað í röðinni. Það hefði reyndar verið slæmt að vera númer tvö en við erum þó hæfilega framarlega til að týnast ekki einhvers staðar í miðjunni.

Og þá er að sjá hvort þetta dugi til að komast út úr forkeppninni.


mbl.is Eiríkur verður fimmti á svið í Helsinki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gulur lækur

Í dag fékk ég það verkefni í vinnunni að skreppa niður á Sólvallagötu og koma beint inn í fréttatímann vegna vatnslekans í miðbænum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek viðtal við mann í gegnum GSM-síma.

Skömmu áður hafði ég lesið það á mbl.is að skólp hefði lekið í kjallarann. Mér varð svo heldur ekki um sel þegar ég beygði inn á Sólvallagötuna frá Ánanaustum og við blasti gulur lækur sem rann niður götuna.

En í spjalli við slökkviliðið kom hins vegar í ljós að það var ekki klóak sem hafði farið inn í húsið. Ef eitthvað annað en venjulegt vatn væri kjallaranum væri það innihaldið úr göturæsinu.

Mér létti aðeins við þetta. Mig minnti að ég hefði áður séð gulan læk, en þá hafði hann verið gulur vegna einhvers olíuleka en ekki vegna þess að menn og málleysingjar hefðu verið svo duglegir að losa sig við úrgang ofan í lækinn. Þetta reyndist eitthvað svipað.

Gunnhildur frænka mín býr reyndar í þessari blokk. En hún var heppin. Hún hafði verið í partýi kvöldið áður og skilið bílinn eftir þar sem það var haldið.

Segið svo að partýin geti ekki gert sitt gagn!


Kostir og gallar

Það hefur bæði kosti og galla að Peter Crouch verði frá næstu vikurnar.

Við missum ákveðið vopn þó að hann hafi ekki beint verið fastamaður í síðustu leikjum. Hæð hans skapar alltaf hættu og skapar hinum framherjunum möguleika.

Með þessu skapast hins vegar pláss fyrir Robbie Fowler í hópnum. Og kannski fær hann þá að spila sig í sitt besta form.

Það verður gaman að sjá hvernig Fowler mun nýta aukna sénsa.


mbl.is Crouch frá keppni næstu vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver stund nýtt

Fór í Sorpu í Garðabæ í gær með flöskur og dósir. Þar var við vinnu útlendingur sem talaði með hreim sem virtist vera frá gömlu austantjaldslöndunum, þannig að ekki er ólíklegt að hann hafi verið Pólverji.

En greinilegt var að hann vildi nýta þetta tækifæri til að æfa sig í íslensku. Þegar skilað er inn flöskum er peningurinn lagður inn á reikninginn með debet-korti. Og þegar hann tók við debetkortinu reyndi hann að lesa nafnið sem á því stóð.

Honum tókst bærilega upp með nafnið mitt, sem hefur löngum verið mikill tungubrjótur erlendis.

Þetta kallar maður að nýta tímann!


Saving Iceland gagnrýnir RÚV

Ég rak augun í litla klausu í DV á föstudaginn þar sem Saving Iceland gagnrýna fréttaflutning RÚV frá 21. febrúar um skemmdarverk Earth Liberation Front (ELF) á vinnuvélum í Hafnarfirði, sem hópurinn hélt að væru að vinna að stækkun álversins í Straumsvík.

Fréttatilkynningin er birt á ensku á vef Saving Iceland. Reyndar er hún endursögð á íslensku annars staðar en þar er stytt útgáfa af henni og því vitna ég hér í ensku tilkynninguna.

Þar segir meðal annars:

"We understand that the report has already been transmitted in various versions on RUV radio. In the 8 o'clock news it is stated directly that the ELF are responsible for the website www.savingiceland.org. Quoting RUV: "... The group [ELF] maintain a website devoted to the struggle against heavy industry in Iceland."

Anyone who has done the slightest amount of research would find that the ELF maintain their own website www.earthliberationfront.com. As far as we are aware the ELF are US based and have never before been concerned with environmental issues in Iceland. Clearly RUV did not bother to find out about this until just before the 12.20pm news. But this did not prompt the RUV news department to correct their earlier inaccuracies regarding the Saving Iceland website."

Hér kemur semsagt fram að í fréttinni kl. 8 hafi komið fram að ELF beri ábyrgð á vefsíðunni Savingiceland.org.

En hvernig hljómar svo fréttin? Þetta kemur fram í fréttinni kl. 8 um síðuna sem slíka.

"Á vefsíðunni Savingiceland.org birtist fyrir skömmu tilkynning um það að Frelsisfylking jarðarinnar eða Earth Liberation Front hefði látið til skarar skríða í fyrsta skipti á Íslandi í upphafi þessa árs. Fylkingin hefur framið fjölda skemmdarverka í nafni umhverfisverndar víða um heim undanfarinn áratug. Vefsíðan er fyrst og fremst helguð baráttu gegn stóriðju og virkjunum á Íslandi."

Semsagt: Fylkingin fremur skemmdarverk, vefsíðan er helguð baráttu gegn stóriðju og virkjunum á Íslandi. Hvort tveggja satt og rétt. Og tilkynningin birtist sannarlega á vefsíðunni. Hér stendur ekkert um að ELF beri ábyrgð á vefsíðunni Savingiceland.org. Það er einfaldlega rangt.

Í tilkynningunni er hins vegar réttilega bent á að uppruni fréttarinnar af skemmdarverkunum er annars staðar frá, eða af heimasíðu EFL. Að því komst ég þegar ég tók við málinu og vann frétt um það fyrir hádegisfréttirnar þennan dag. Það má vel vera að það hefði mátt fylgja fréttinni kl. 8 að fréttina hafi upphaflega birst þar en engu að síður er ekkert rangt við þá frétt eins og Saving Iceland vill halda fram.

Síðan segir síðar í tilkynningunni:

"In the lunch time news at 12.20pm Olafur Pall Sigurdsson is mentioned as the "spokesman of Saving Iceland". It is true that OPS is one of the founders of SI and was one of the spokespersons for the protest camp in the summer of 2005. Since then many other people have spoken on behalf of SI in accordance with our policy of rotating that particular function. Never during the protests in the summer of 2006 did OPS speak on behalf of Saving Iceland and he has not been advertised since as freely available to comment on any issue regarding SI. To single one individual out and mention his name in association with this news without his consent is questionable and smacks of highly irresponsible attempts at scapegoating, hardly worthy of a National Broadcast Service."

Semsagt, ég er að gera Ólaf Pál að blóraböggli með því að minnast á hann í fréttinni. Þetta er auðvitað algjör fjarstaða. Við vinnslu fréttarinnar reyndi ég að ná í Ólaf, eins og kom fram í fréttinni. Mér var bent á hann sem talsmann samtakanna af manneskju sem hefur starfað fyrir þau. Ég margreyndi að ná í hann og lagði inn skilaboð á talhólfið hans. Ég notaði símann, vegna þess að yfirleitt er maður fljótari að ná í fólk á þann hátt en með tölvupósti. Meira get ég ekki gert. Það er venja að það er skráður einhvern kontakt-aðili á heimasíður svona samtaka, en ekkert slíkt var að finna á vef Saving Iceland.

Ég benti á í færslu hér á þessari síðu fyrir nokkrum vikum að fólk á það til að lesa í fréttaflutning fjölmiðla og fá úr því eitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Saving Iceland tiltekur meðal annars að fyrst RÚV ákveður að taka málið upp fyrst þarna þó að fréttin hafi verið á vef samtakanna í fjórar vikur, þá hljóti RÚV að vera að reyna að hafa áhrif á þá sem munu kjósa um stækkun álversins í Straumsvík! Mönnum dettur náttúrulega ekki í hug að ástæðan geti verið sú að við höfum ekki komist á snoðir um fréttina fyrr en þá, sem er auðvitað rökréttasta skýringin.

Þá kemur einnig fram að RÚV hafi aldrei skrifað samtökunum til að leita skýringa. Ég bendi á móti á að Ólafur Páll hefur enn ekki svarað skilaboðum frá mér.

Krafist er afsökunarbeiðni og leiðréttingar. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið spyr ég: Hvað á að leiðrétta?

Ég tek það fram að þessi færsla er skrifuð á mína ábyrgð, en ekki í nafni Fréttastofu Útvarpsins.


Fjölmiðlafjöld

Nú er komið svo mikið af dagblöðum og tímaritum að maður er í standandi vandræðum með að komast yfir þetta allt. Svo eru blöðin líka að breytast svo mikið að maður nær varla utan um þetta.

 Þó get ég sagt að mér finnst Króníkan hafa unnið á. Ég var ekkert sérstaklega sáttur við fyrsta blaðið, fannst það heldur óspennandi. En hin tvö blöðin hafa verið meira spennandi, í það minnsta hefur verið meira í þeim sem ég hef haft áhuga á að lesa.

Þá er DV orðið að dagblaði, en maður verður lítið var við það því það er ekki hægt að fá það í áskrift, blaðið berst ekki á fréttastofuna og ég hef ekki einu sinni séð það selt. Helgarblaðið fæ ég hins vegar heim og það er oft margt gott í því. Ég deili ekki þeim áhyggjum manna að búið sé að eyðileggja nafnið DV fyrir lífstíð og tengja það við sorpblaðamennsku. En ef enginn sér blaðið verður varla mikið úr því.

Svo eru það öll þessi tímarit - Vikan, Mannlíf, Ísafold og hvað þetta heitir nú allt saman. Ég hef miklar efasemdir um að markaður sé fyrir þetta allt saman, enda hefur rekstur þessara blaða gengið upp og ofan í gegnum tíðina.

En nú er spurningin: mun eitthvað láta undan? Mun eitthvað af þessum blöðum leggja upp laupana? Eða er markaðurinn fyrir lesendur og auglýsendur það stór að þetta getur allt saman lifað af?

Ég ætla ekki að vera með einhverja stóra spádóma enda hafa þeir yfirleitt aldrei ræst hjá mér. En ég hef samt á tilfinningunni að eitthvað eigi á endanum eftir að láta undan.


Endalaus veikindi

Nú er Sif búin að vera veik í ellefu daga. Í gær vorum við komin á þá skoðuna að þetta væri fullmikið. Ég var reyndar að vinna alla helgina þannig að Rósa fór með Sif á læknavaktina í gær. Þar var ákveðið að setja hana á sýklalyf (fjórða sinn sem hún fer á slík lyf) þar sem hún gat greinilega ekki unnið á sýkingunni sjálf. Næsta skref er svo að panta tíma hjá háls,- nef- og eyrnalækni sem vonandi finnur einhverja varanlega lausn á þessu. Hóstinn hefur aukist hjá Sif um helgina en hitinn virðist hins vegar vera að minnka.

Það eru óneitanlega viðbrigði að eiga barn sem er svona mikið veikt því að Líf veiktist nánast aldrei og var algjört draumabarn að þessu leyti (og var reyndar líka miklu rólegra barn en Sif, en það er annað mál). Þetta hefur verið töluvert púsl, en vaktavinnan mín hefur reyndar hjálpað til þar sem Rósa hefur síður þurft að missa úr vinnu og svo hef ég líka getað verið heima aðeins fram eftir morgni þegar ég á að vera á vakt.

Þetta eru semsagt búnir að vera erfiðir dagar upp á síðkastið. En svo þegar maður fer inn á bloggsíður á borð við þessa og þessa þá skammast maður sín fyrir að kvarta yfir svona smámunum þegar fullt af fólki er í mun verri stöðu en maður sjálfur.


Brúðubíllinn

Í veikindum Sifjar hefur sjónvarpið nokkuð verið notað, en Sif er til þess að gera nýbyrjuð að geta verið kyrr yfir einhverju sjónvarpsefni. En hingað til hefur hún aðeins getað horft á eitt - Brúðubílinn!

Í gegnum ADSL-sjónvarpið hjá Símanum er hægt að horfa frítt á tvo hálftíma þætti með Brúðubílnum. Þetta hefur verið óspart notað þegar Sif er verulega óróleg sem hefur þýtt að ég hef fengið hálftíma til að sinna verkefnum sem ég þarf að sinna utan vinnunnar. Hún fær reyndar aðeins að horfa á einn svona þátt á dag. Við höfum reynt að fá hana til að horfa á ýmislegt annað, meðal annars Skoppu og Skrítlu, en hún hefur ekki haldist yfir því. Tek það samt fram að ég hef ekki prófað Stubbana ennþá.

Eins og ég er þakklátur Brúðubílnum fyrir þessa afþreyingu fyrir dóttur mína, finnst mér þetta efni hrútleiðinlegt. Ég er kominn með setningar á heilann eins og "ég byggi mér hús, ég byggi mér hús, ég byggi mér hús úr stráum," eða söngvum í þá veruna.

Það sem maður leggur á sig fyrir blessuð börnin!!


Sælutilfinning

Hvaða leið er betri til að slá á allar neikvæðar raddir en að verða fyrsta liðið í rúmt ár til að vinna Barcelona á þeirra eigin heimavelli?

Ég er nú ekki farinn að fagna strax, Barcelona-menn eru ansi líklegir til að skora á Anfield, en ég held að Benítez geri mönnum líka grein fyrir því að þetta sé langt í frá búið.

Svo er það ekki síður sögulegt að John Arne Riise skori svona glæsilegt mark með HÆGRI!

Vil einnig þakka þeim sem voru á Players í gærkvöldi. Stemningin var hreint stórkostleg.

Bara að menn verði svo ekki með allt niður um sig gegn Sheffield United um helgina!


mbl.is Frækinn sigur Liverpool á Camp Nou
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 433

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband