Þriðjudagur, 19. júní 2007
Úrskurður á hæpnum forsendum
Þessi úrskurður siðanefndar kom mér á óvart. Mér fannst reyndar fyrsti hluti umfjöllunar Kastljóss um þetta mál ekki nógu vel unninn og full einhliða. En ef þessi umfjöllun telst alvarlegt brot á siðareglum, og það á þeim rökum sem siðanefnd tilgreinir, finnst mér að ansi margt geti þá talist brot á siðareglum.
Fullyrðingin í úrskurðinum um að þetta mál sé sérstaklega vandasöm af því að það er svo stutt í kosningar er klaufaleg. Ég er ekki viss um að meiningin hafi verið að segja að það verði að fjalla öðruvísi um svona mál rétt fyrir kosningar en á öðrum tímum, en þetta orðalag er ekki til sérstakrar fyrirmyndar. Það er líka hægt að skilja Kastljósmenn ágætlega með það að ónákvæmni í upplýsingum í fyrsta hluta umfjöllunarinnar komi til annars vegar af villandi orðalagi í greinargerð og hins vegar að fólk sem leitað var til vildi ekki tjá sig.
Mér finnst yfirlýsing Kastljósmanna líkja hrekja ýmislegt sem stendur í úrskurðinum með tilvitnun beint í umfjöllunina, og það lítur ekki sérstaklega vel út fyrir siðanefndina.
Ég er á því að Kastljósið hefði geta unnið þessa umfjöllun betur. En það er full langt gengið að þetta sé alvarlegt brot. Ef á annað borð var um brot að ræða var það ekki meira en ámælisvert.
Kastljós mótmælir harðlega niðurstöðum og vinnubrögðum Siðanefndar BÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Alvöru fréttamenn??
Bloggari hér á Moggablogginu saknar alvöru fréttamanna í fréttum útvarpsins. Hlustaði á útvarpsfréttir fyrir tveimur dögum með notalgíuglampa í augum og saknar þeirra sem eru "eldri en tvævetur". Af orðum hennar mætti ætla að enginn alvöru fréttamaður sé eftir á fréttastofu Útvarpsins, sérstaklega eftir að Björg Eva Erlendsdóttir hætti, sem einhvern veginn (ég skil ekki hvernig) virðist þó hafa farið framhjá þessum ágæta bloggara.
Ég verð að segja að ég skil ekki almennilega hvað fer svona fyrir brjóstið á bloggaranum. Ef hún saknar gamalla fréttahauka, þá eru enn við störf fréttamenn á borð við Brodda Broddason, Arnar Pál Hauksson, Bergljótu Baldursdóttur, Jóhönnu Margréti Einarsdóttur, Svein Helgason, Þórhall Jósefsson, Ólöfu Rún Skúladóttur og Pálma Jónasson (sem er reyndar í löngu fríi en kemur aftur í ágúst). Í erlendum fréttum eru svo menn á borð við Kristján Róbert Kristjánsson, Þorvald Friðriksson og Ásgeir Tómasson. Sjálfsagt gleymi ég einhverjum í þessari upptalningu, en ég held að það búi nóg af reynslu í þessu fólki. Í Speglinum starfa þrautreyndir menn á borð við Friðrik Pál Jónsson, Jón Guðna Kristjánsson og Gunnar Gunnarsson. Allt er þetta þrautreynt fólk. Fréttastofan hefur einnig marga góða yngri einstaklinga eins og Ingimar Karl Helgason, Heiðar Örn Sigurfinnsson, Einar Þorsteinsson, Kristínu Sigurðardóttur, Áslaugu Skúladóttur o.fl., allt toppfólk. Nú er hins vegar sumar, þá er fólk í fríum og því kemur afleysingafólk inn í staðinn.
Það hefur vissulega orðið hreyfing á fólki hjá fréttastofunni og nokkrir reyndir fréttamenn hafa hætt. En það er ekki verra ástand hjá okkur en á öðrum fjölmiðlum. Það er hreyfing á fólki alls staðar.
Bloggarinn klikkir svo út með því að gefa það í skyn að Björg Eva hafi verið tekin af þinginu af því að hún hafi ekki verið nógu þægileg við stjórnarherrana. Ég veit ekki hvernig henni dettur það í hug. Björg Eva er hætt. Það kemur fyrir að fólk hætti, og ekkert óeðlilegt við það. Af hverju að gera það tortryggilegt?
Ég fullyrði að Fréttastofa Útvarpsins er með best mönnuðu fjölmiðlum landsins. Ungt fólk í bland við reynslubolta. Og þannig á það að vera.
Bloggar | Breytt 15.6.2007 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 8. júní 2007
Morgun(ó)gleði
Þessa vikuna hef ég verið á morgunvakt, mætt klukkan sex í vinnuna alla morgna. Hef leyst Lindu Blöndal af í vaktstjórn morgunfrétta og séð um stuttu fréttirnar fram að hádegi. Ég verð í þessu í tæpar þrjár vikur til viðbótar, eða áður en ég fer í frí.
Ég ákvað að slá til og reyna þetta þegar ég var beðinn um það. Fyrsta vikan lofar ekki góðu, en hugsanlegt er að annir við bókaskrifin spili þar eitthvað inn í. Ég næ ekki að fara fyrr að sofa, og finnst það tímasóun að vera að leggja mig einhvern tíma yfir daginn. Þó er ljóst að ég verð að gera annaðhvort þegar ég er á þessum vöktum.
Það hefur svo ekki hjálpað að veðrið er búið að vera ömurlegt þessa viku. Maður sá það sem kost að geta notið betur sumarsins en ella - en það hefur ekki gengið þessa vikuna.
Ég held það þó alveg út að gera þetta í þessar fjórar vikur og það er mjög gaman að vera í eins konar vaktstjórn. En ég held að ég gæti ekki gert þetta allan ársins hring. Til þess hef ég of gaman að því að vaka á kvöldin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 30. maí 2007
Tímabær bloggfærsla
Jæja, eftir annir mánaðarins (sem eru reyndar enn til staðar) er best að fara að lífga upp á þessa síðu sem er búin að vera í lægð alltof lengi. Mér er reyndar huldin ráðgáta hvað 55 manns voru að gera inni á þessari síðu síðustu vikuna. En það er svo annað mál.
En nú er semsagt stórt verkefni á lokastigi - bókin um sögu kjörs íþróttamanns ársins og jafnframt sögu Samtaka íþróttafréttamanna. Ég skila textanum væntanlega af mér á næstu dögum og verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur allt saman út. Og hvort að maður geti skrifað bók sem eitthvað er varið í.
Síðan er maður farinn að telja niður fyrir sumarfríið til Danmerkur og Noregs, sem farið verður í eftir fjórar vikur. Mikið verður það ljúft, sérstaklega þar sem ekkert var sumarfríið í fyrra.
Ég gæti skrifað margar bloggfærslur um það sem ekki hefur unnist tími til að blogga um síðustu vikur. Eurovision, kosningarnar, Liverpool, KR og allt þar á milli. En nú er víst best að huga að framtíðinni - og hún felur þá í sér að vera duglegri að blogga en ég hef verið síðustu vikur - og þá jafnvel segja eitthvað merkilegt í þessum bloggum.
Nú skal reynt að bæta úr því.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Annir og...
Eins og sést á lítilli virkni á þessu bloggi hafa miklar annir sett svip sinn á síðustu daga og vikur.
Undirbúningur að kosningaþætti á fimmtudaginn, bókaskrif og hið hefðbundna brauðstrit hefur tekið allan minn tíma fyrir utan samveru með fjölskyldunni. Gaf mér þó tíma til að detta í'ða með fótboltafélaginu Sheffield Tuesday. Sá eðalfélagsskapur klikkar ekki.
En þar sem kosningar eru á næsta leyti og ég þarf að skila texta að bók innan mánaðar þá verð ég ekkert sérstaklega virkur hér á næstunni (nema að andinn komi yfir mig, sem er óvíst). Þó að nóg sé um að skrifa.
Og hér lýkur efnisminnstu færslu á bloggferli mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 15. apríl 2007
Skemmtileg söngkeppni
Það er alltaf jafn gaman að horfa á söngkeppni framhaldsskólanna. Standardinn á þessari keppni fer sífellt hækkandi og maður er hættur að sjá einhver algjör flopp eins og maður sá stundum fyrir nokkrum árum. Vissulega eru ekki öll atriðin algjör toppatriði en það heyrir til algjörrar undantekningar ef eitthvað er verulega slæmt.
Sigurvegarinn úr VMA vann þetta verðskuldað. Mér fannst hann strax sigurstranglegur um leið og ég heyrði í honum. Annað sætið hjá FÁ var líka verðskuldað en þriðja sætið hjá Fjölbraut á Suðurnesjum var það engan veginn. Mörg atriði voru mun betri en það, og bendi ég meðal annars á MA og Versló. Að maður tali nú ekki um MH, sem mér fannst raunar flottasta atriðið. Ég hef alltaf haft mjög gaman af A capella söng, enda er hann mjög flottur þegar hann tekst vel. Það er hins vegar afar vandasamt að ná honum góðum og það má lítið út af bera til að hann verði algjört flopp. En MH-ingarnir náðu þessu frábærlega og mjög gott að þeir skyldu þó fá einhverja viðurkenningu fyrir það með sigri í SMS-kosningunni.
Snorri Sturluson fullyrti að þeir sem vinna keppnina nái sjaldnast langt, þó að ýmsir aðrir sem hafi stigið sín fyrstu spor hafi gert það. Ég skrapp á Wilkipediu til að athuga hvaða sigurvegarar úr keppninni hefðu náð langt á söngbrautinni. Og það eru Margrét Eir ('91), Margrét Sigurðardóttir ('92, er reyndar í klassískum söng), Emilíana Torrini ('94), Þórey Heiðdal ('96), Guðrún Árný Karlsdóttir ('99), Sverrir Bergmann (2000) og Anna Katrín (2003). Þetta finnst mér ekki svo slæmt hlutfall. En svo eru í neðri sætum að finna fólk eins og Móeiður Júníusdóttir, Páll Óskar, Hera Björk, Svavar Knútur Kristinsson, Regína Ósk og Þorvaldur Þorvaldsson. Svo hafa Magni, Birgitta og Jónsi líka keppt. Það eru sennilega öllu fleiri, en það geta heldur ekki allir unnið.
Finnst mjög gott hjá RÚV að sýna þessa keppni, enda um prýðis sjónvarpsefni að ræða. Finnst reyndar að kynnarnir ættu að vera í hópi framhaldsskólanema eins og var einu sinni.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Venjulegt líf á ný
Lífið er kominn í fastar skorður á ný. Við lentum rúmlega hálf sex á þriðjudagsmorguninn í Keflavík og nú tæplega þremur dögum síðar eru við búin að taka upp úr töskunum, byrja að vinna og jafna okkur á tímamismuninum. Allt því orðið eins og áður.
Flugleiðir fá reyndar ekkert sérstaka einkunn fyrir að skipta um flugvöll frá því síðast, þannig að í stað þess að lenda á alþjóðaflugvellinum í Orlando, sem er hinn glæsilegasti, er nú lent í Sanford, sem er í um klukkutíma akstri frá Orlando og þar að auki á afskaplega óspennandi og leiðinlegum flugvelli.
Þá fær roskna konan sem sat í sætaröðinni fyrir aftan okkur heldur ekki háa einkunn. Líf ætlaði að halla sæti sínu aftur til að reyna að sofa en uppskar það aðeins að konan ýtti sætinu alltaf til baka og gaf okkur nístandi augnaráð. Ég veit ósköp vel að maður er nánast eins og í sardínudós í þessum flugvélum en mér finnst þetta samt dónaskapur. Ég ákvað því að skipta um sæti við Líf þar sem maðurinn í mínu sæti var öllu góðhjartaðri og því náði Líf, og reyndar líka Sif og Rósa, að sofa í 3-4 tíma í vélinni. Ég svaf hins vegar nánast ekki neitt.
Það eru hins vegar annasamir tímar framundan hjá mér. Í vinnunni snýst mikið um kosningarnar og fyrir utan það er ég að skrifa bók sem ég þarf að skila textann af fyrir mánaðamótin maí-júní. En þannig vill maður líka hafa það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 7. apríl 2007
Blogg frá Flórída
Við fjölskyldan höfum notið sólarinnar í Orlando í Flórída frá því á mánudag (fórum reyndar á sunnudag en vorum ekki komin á hótelið fyrr en hálf fimm um nóttina að íslenskum tíma). Búið að fara í Universal Studios og Wet'n'Wild vatnsrennibrautargarðinn og sjá Dolly Parton sýninguna Dixie Stampade. Allt þetta hefur verið hin besta skemmtun.
Sif reyndar tók upp á því að fá hita rétt eina ferðina en losnaði við hann á þremur dögum hér í sólinni og hefur verið hin sáttasta síðan. Líf hefur verið ánægð með garðana og við höfum fengið mikla sól.
Ég sagði það í bloggi fyrir tveimur árum, þegar við komum hingað síðast, að ég væri virkilega hrifinn af því að geta komist í smá sól svona rétt áður en sumarið byrjar. Ég styrktist enn meira í skoðun minni nú. Þetta er bara algjör snilld, og að geta verið í 25-30 stiga hita í apríl eru bara forréttindi.
En það er einn galli við þetta fyrir fréttafíkil eins og mig - maður getur ekki sífellt verið með fréttirnar í eyrunum!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Vandasamt mál
Já, það er ekki alltaf tekið út með sældinni að fjalla um hitamál. Og það er eiginlega kominn það mikill hiti í þetta mál að það er alveg sama hvernig maður fjallar um það, það verða alltaf einhverjar óánægjuraddir.
Inn á fréttastofuna hafa borist óánægjupóstar eða símtöl frá öllum þeim sem taka þátt í þessari kosningabaráttu. Það er við því að búast í svona hitamálum.
Á nokkrum bloggsíðum sem ég hef lesið - og reyndar á vef Hags Hafnarfjarðar líka - hef ég hins vegar lesið það viðhorf að Sól í Straumi komist full auðveldlega í fjölmiðlana með sínar skoðanir, sama hvað þeir hafa að segja.
Ég hef gert ansi margar fréttir um þessa kosningabaráttu og get eiginlega ekki setið undir því að ég sé að gera öðrum aðilanum hærra undir höfði en hinum. Það er hins vegar alltaf matsatriði hvað af þeim fjöldamörgu yfirlýsingum sem koma frá öllum aðilum er rétt að setja í fréttir. Og maður stendur og fellur með því mati. Og ég tel mig allavega ekki vera fallinn ennþá.
Vil þó koma með ábendingu vegna yfirlýsingar Hags Hafnarfjarðar um að fréttamenn sem skrifað hafa undir sáttmála framtíðarlands séu að hafa áhrif á fréttaflutning. Hafa þessir fréttamenn verið að fjalla um stækkun álversins?
En þessi kosning verður svakalega spennandi. Og það er gaman að geta tekið þátt í henni...í það minnsta ætti maður með allri þessar umfjöllun að geta tekið nokkuð vel ígrundaða afstöðu.
Stefnir í tvísýnar álverskosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. mars 2007
Frábær helgi
Hef haft lítið að segja upp á síðkastið. En nú er tilefnið ærið.
Um helgina var hér í heimsókn Ron Yeats, sem var fyrirliði Liverpool á árunum 1961-71. Hann var mikill varnarjaxl en í heimsókninni kom líka í ljós að þetta er frábær náungi.
Á árshátíð Liverpoolklúbbsins á laugardagskvöldið kom hann upp og sagði nokkrar sögur. Og hann fór gjörsamlega á kostum. Sagan af fyrsta leik hans sem atvinnumanns í knattspyrnu, þegar hann lék með Dundee United, var hreint og beint stórkostleg og verður væntanlega hægt að lesa hana í næsta tölublaði Rauða hersins, tímariti Liverpoolklúbbsins, í júní.
Svo komu einnig nokkrar óborganlegar sögur af Bill Shankly.
Nokkrir KR-ingar sem léku gegn honum árið 1964 þegar Liverpool og KR léku sinn fyrsta Evrópuleik fengu einnig að hitta hann. Þar var einnig ýmislegt rifjað upp og gaman að þeir skildu hafa fengið tækifæri til að hitta hann.
Það er Liverpoolklúbbnum mikill heiður að hafa fengið þennan snilling í heimsókn.
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar