Heimilisverkefni

Þegar ég er á kvöldvakt er gott að nýta morgnana í ýmis þarfaþing fyrir heimilið. Í dag var mér falið (mér hefði aldrei dottið það í hug sjálfum) að þrífa rimlagardínurnar. Þetta er afar seinlegt og leiðinlegt starf, en miðað við rykið sem hafði safnast á þessum rimlum svo lítið bar á var það greinilega nauðsynlegt. Þá var líka þveginn þvottur (tvær vélar nánar tiltekið).

Á morgun er svo stefnt að því að þrífa grillið, sem löngu er kominn tími til. Það fer þó eftir veðri, þar sem nauðsynlegt er að gera það úti á svölum. Ég leit aðeins ofan í það í dag og miðað við þar er ærið verk fyrir höndum. Veit samt ekki enn hvort að það sé jafn seinlegt og rimlagardínurnar - en það verður í það minnsta ekki þrifalegra.

***

Líf tók upp á því að fá hita á sunnudaginn. Hún lá heima á mánudag en dreif sig svo í skólann í dag. Þetta var nokkuð sjokk því Líf verður aldrei veik og hefur yfirleitt látið yngri systur sína um að ná í allar pestir sem hægt er að ná í. Fyrst þetta gerðist, ætli ég sé þá næstur?

Best að fá sér eitt viskístaup til að koma í veg fyrir að það gerist. Verst að maður getur ekki notað það meðal á yngri fjölskyldumeðlimi!

***

Að allt öðru: Ég er búinn að skella eintaki af plötunni Hvers vegna varst'ekki kyrr? með Pálma Gunnarssyni inn í Ipodinn minn. Þessi plata kom út 1980 en hefur fyllilega staðist tímans tönn. Algjör snilldarplata. Lagið Andartak finnst mér sérstaklega flott.

***

Að þessu sögðu hef ég ákveðið að gera ótímabundið hlé á bloggskrifum. Hef bloggað frekar af hálfgerðri skyldurækni upp á síðkastið og færslurnar verið stopular, þannig að ég ætla að segja þetta gott, í það minnsta þangað til ég nenni að taka þráðinn upp aftur af einhverri alvöru. Þakka lesendum og bloggvinum samfylgdina.


Ferð framundan

Ýmislegt að gerast hjá mér þessa dagana.

Líf varð níu ára á mánudaginn. Við ákváðum að afmælið fyrir bekkjarsystur og vinkonur yrði haldið utan heimilis og því var ákveðið að halda það í Stjörnustelpum. Þar var stelpunum boðið upp á málningu og þær fengu að klæða sig upp eins og poppstjörnur. Þetta ku víst hafa slegið í gegn - en það er samt undarleg tilfinning að hafa ekki verið viðstaddur þetta afmæli sjálfur. Næstum eins og að maður hafi svikist um að vera einhvers staðar þar sem maður á að vera. Get þó huggað mig við það að fyrir viku var haldin veisla fyrir ættingjana, og hún var með gamla laginu, þ.e. kökur og með því.

***

Í vikunni fékk ég þær fréttir að stefnt er að því að ljúka umbroti bókarinnar í lok næstu viku. Ég er orðinn verulega spenntur að sjá afraksturinn. Þá er komið nafn á bókina - sem er flott og grípandi. Ekki spurning að þetta er jólabókin í ár.

***

Sig er nýstigin upp úr veikindum - þetta er í annað sinn sem hún veikist með stuttu millibili. Ótrúlegt hvað pestir sækja í þetta barna. Veikindin núna voru hins vegar gin- og klaufaveiki, sem hún fékk um leið og hún fór að ganga á deildinni (og nei, þessi sjúkdómur er ekki bara í húsdýrum). Það tók fljótt af á meðan fyrri veikindi tóku næstum viku.  Ég vona (7-9-13) að þetta sé nú að baki hjá henni.

***

En það sem hæst ber er að nú er langþráð helgarferð framundan hjá mér og Rósu. Það var ákveðið skyndilega að kanna möguleikann á því að Rósa kæmi með mér til Liverpool, en ég á að vera fararstjóri í hópferð á leikinn gegn Fulham 10. nóvember. Þó að Rósa fái ekki miða á leikinn gekk þetta upp að öðru leyti og er mikil tilhlökkun með þetta. Kannski líka kvíði, því við höfum aldrei skilið Sif eftir svona lengi - en það er alveg ljóst að við höfum bæði gott af þessu!

***

Á morgun er ég að fara að keppa á fjölmiðlamótinu. Takmarkið er að ná að skora eitt mark. Fjarlægt kannski - en maður verður alltaf að setja sér háleit markmið!


Ojjj

Fyrir nokkrum dögum varð ég verulega áhyggjufullur.

Í hvert sinn sem ég kyssti Sif bless eða góða nótt sagði hún: "Ojjjjj". Þegar þetta var farið að ganga svona í 2-3 daga var mér hætt að lítast á blikuna. Var ég andfúll? Eða var þetta eitthvað persónulegt? Eða var kannski komið almennt kossaógeð yfir hana?

Skýringin reyndist hins vegar einföld - þegar ég rakaði mig hætti hún þessu. Síðan þá hef ég passað betur að raka mig reglulega.

Besta aðhald sem hægt er að fá!


Ætlar þetta að verða meiðslavetur?

Ég vona að þetta sé ekki forsmekkurinn af því sem koma skal. Tveir leikmenn ristarbrotnir, og áður hefur einn rifbeinsbrotnað, einn nefbrotnað, einn tábrotnað og einn tognað á nára. Enginn þeirra var reyndar eins lengi frá og þeir Alonso og Agger verða núna.

Mér finnst það reyndar sérstaklega mikið áfall að missa Agger. Hann var einn okkar besti leikmaður í fyrra og við missum hraða úr vörninni með því að Hyypia komi inn í staðinn fyrir Agger. En á móti kemur að Hyypia er reynslubolti og hefur bætt hraðaleysið upp með góðum staðsetningum. Við eigum auðveldara með að leysa fjarveru Alonso.

En vonandi verður ekki meira um alvarleg meiðsli hjá okkur mönnum.


mbl.is Tveir leikmenn Liverpool fótbrotnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur og RÚV

Loksins þegar ég sest við bloggið er tilefnið skrítin frétt í DV í dag um að konur tolli ekki á RÚV. Þá kemur fram gagnrýni í greininni um að stjórnendur vilji ekki konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir.

Fyrst eru taldar upp þrjár konur sem hafa sagt starfi sínu lausu eða eru á leið frá stofnuninni - Ólöf Rún Skúladóttir, Anna Kristín Jónsdóttir og Hjördís Finnbogadóttir. Það er rétt að Ólöf Rún hefur sagt upp fastri stöðu sinni á fréttastofunni. Anna Kristín og Hjördís hafa hins vegar ekki unnið á fréttastofunni um nokkuð langt skeið (eins og reyndar kemur óljóst fram í greininni) en hafa séð saman um þáttinn Vikulokin. Þær eru í raun núna eins og hverjir aðrir verktakar, þannig að ég er ekki alveg að skilja af hverju þær eru í þessari upptalningu. Björg Eva virðist einhverra hluta vegna samt staðfesta þetta og segir í greininni: "Útvarpið má illa við því að þrjár fréttakonur hætti nú störfum." Það eru ekki þrjár fréttakonur að hætta - aðeins ein.

Síðan eru taldar upp nokkrar konur sem hætt hafa störfum. Eina þeirra þekki ég reyndar ekki, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Björg Eva Erlendsdóttir hætti vegna ósættis. En hvað varðar hinar konurnar sem eru taldar upp þá varð Valgerður Jóhannsdóttir varafréttastjóri Sjónvarpsins og Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður á Sjónvarpinu (semsagt, starfa ennþá á stofnuninni). Sigríður Árnadóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fóru til Stöðvar 2 og Sigrún Björnsdóttir til Háskóla Íslands. Ég hef ekki heyrt um neitt ósætti við sína vinnuveitendur hjá þessu fólki.

Í greininni er jafnframt talað við Önnu Kristínu og Hjördísi, sem lýsa yfir miklum áhyggjum með hvað konum sé að fækka og Anna Kristín gefur það meira að segja í skyn að stjórnendur hafi engan áhuga á að hafa konur á miðjum aldri í vinnu. Þær virðast hins vegar ekki hafa verið spurðar að því sjálfar af hverju þær hættu störfum. Þær hljóta að geta ályktað út frá eigin starfslokum af hverju þær telja að ástandið sé svona.

Og ef stjórnendur eru svona mikið á móti konum á miðjum aldri, af hverju var þá Guðrún Frímannsdóttir ráðin til starfa á útvarpinu í vor? Og af hverju var Bergljót Baldursdóttir gerð að varafréttastjóra?

Síðan er látið eins og engir karlmenn hafi hætt störfum á fréttastofunni á síðustu tíu árum. En þar er nóg að nefna fólk á borð við Jón Baldvin Halldórsson, Kára Jónasson, Jóhann Hauksson, Ara Sigvaldason, Ólaf Teit Guðnason, Jóhannes Bjarna Guðmundsson, Kristján Kristjánsson, Svavar Halldórsson og Guðjón Helgason. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum. Þetta fólk er kannski ekki nógu gamalt (fyrir utan Jón Baldvin, Kára og Jóhann) til að komast í umfjöllunina hjá DV.

Síðan hafa margar hæfar konur verið ráðnar á fréttastofuna upp á síðkastið, eins og fyrrnefnd Guðrún, Kristín Sigurðardóttir og Áslaug Skúladóttir, svo einhverjar séu nefndar. Og ég veit að núverandi fréttastjóri hefur lagt áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni.

Það sem gerir þessa grein svo endanlega þannig að ekki er hægt að taka hana trúanlega er að í undirfyrirsögninni stendur. "Stjórnendur hennar [þ.e. Fréttastofu Útvarpsins] eru gagnrýndir fyrir að vilja ekki hafa konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir." Í greininni er hins vegar haft eftir Hjördísi Finnbogadóttur: "Konur fá síður framgang í starfi innan stofnunarinnar, sem á reyndar við í fjölmiðlum almennt, og oft virðist það vera tilhneiging hjá karkynsstjórnendum að vilja ekki vera með konur sem eru faglega jafngóðar eða betri en þeir." (leturbreyting er mín). Semsagt, Hjördís segir þetta eiga við almennt í fjölmiðlum, ekki bara um Ríkisútvarpið.

Ég held reyndar að þetta sem Hjördís bendir á sé lykilatriði. Ef konur fá ekki sömu möguleika á framgangi í starfi og karlar þarf að taka á því. En að fara að taka RÚV sérstaklega fyrir í þessu samhengi er fáránlegt, einkum í ljósi þess að núverandi fréttastjóri hefur lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni. 

Þá má kannski benda á að hjá Stöð 2 hafa fjölmargar konur hætt á síðustu árum, t.d. Elín Hirst, Ólöf Rún Skúladóttir, Hulda Gunnarsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Þóra Arnórsdóttir, Sigríður Árnadóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Telma Tómasson, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, Helga Guðrún Johnson og þannig gæti ég haldið lengi áfram. Ætli DV eigi eftir að slá því upp á forsíðunni á morgun?


Fjárfestingar

Þó að hléið sé orðið langt núna þá verður þessi færsla ekkert merkilegri en hver önnur. Enda mun ég bara setja eitthvað inn hér þegar ég nenni því.

En allavega - nokkrar stórar ákvarðanir bíða fjölskyldunnar núna. Eða - allavega tvær.

Við höfum mikið verið að velta því fyrir okkur hvort við eigum að fara að uppfæra bílinn. Ekki það að sá sem við eigum hafi reynst okkur illa - það er Toyota Corolla Wagon sem var keyptur nýr í ársbyrjun 2005. Spurningin er hins vegar hvort ekki sé rétt að fara fljótlega út í að uppfæra meðan sæmilegt verð fæst fyrir þann sem við eigum. Við erum alvarlega að spá í Corolla Verso út af því að möguleiki er á tveimur aukasætum í skottinu, og þar með er hann orðinn sjö manna. Sem getur verið afar hentugt. Nokkur heilabrot fylgja þessu núna.

Hitt varðar bankaviðskipti, en sú pólitíska ákvörðun hefur verið tekin að leita að betri bankakjörum og nú er verið að kanna hvað bankarnir bjóða. Þar er margs að gæta og spurningin er hver býður það sem hentar okkur best. Það verður líka lagst yfir þetta næstu daga.

***

Á morgun (eða í dag) er Sif að fara í fyrstu heimsókn sína í leikskólann, og þar með hefst aðlögun í honum. Í næstu viku byrjar Líf svo í fjórða bekk í Áslandsskóla.

Svakalega er maður orðinn gamall!


Nýju mennirnir lofa góðu

Mikið er ég ánægður með það sem nýju mennirnir okkar sýndu í þessum leik. Benítez hefur alveg verið á réttri hillu í þessum kaupum í sumar. Voronin er að koma skemmtilega á óvart og það verður erfitt að horfa framhjá honum ef hann heldur svona áfram.

Ég var líka sérstaklega ánægður með Jermaine Pennant í þessum leik. Hann lék aðeins fyrri hálfleikinn en átti algjöran stjörnuleik. Það verður alvöru samkeppni á hægri kantinum - nokkuð sem við höfum ekki átt að venjast síðustu árin.

Þeir sem fyrir eru þurfa hins vegar að herða sig og ég hef trú á því að þeir geri það áður en mótið hefst. Nú þurfum við að gera alvarlega atlögu að titlinum.


mbl.is Voronin með tvö mörk í sigri Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttastöðvar

Þegar ég var í Noregi datt ég öðru hverju inn á fréttasjónvarpsstöð TV 2 sem hóf útsendingar síðastliðinn vetur. Þar voru mikið til sömu fréttirnar sendar út á klukkustundar fresti eins og er oft til dæmis á Sky.

Þegar ég spurði mágkonu mína og svila út í stöðina sögðust þau eiginlega aldrei horfa á hana. Aðalfréttatíminn væri eftir sem áður á TV 2 sjálfri og það væri það eina sem þau þurftu. Þá sögðu þau líka að það væri alveg á mörkunum að vera með svona stöð í Noregi þar sem þar búa "aðeins" 4,5 milljónir. Mér fannst þetta athyglisverð ummæli þeirra í ljósi tilraunarinnar sem gerð var hér með NFS. Þessi stöð fannst mér þó betur uppbyggð en NFS - þar voru ekki stöðugir umræðuþættir heldur var meiri áhersla lögð á fréttirnar sjálfar - sem mér finnst betri nálgun.

Það verður allavega fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessari fréttastöð TV 2 gengur í Noregi. En þess ber að geta að þar eru samlegðaráhrifin meiri, því eftir því sem þau sögðu mér eru að hluta sömu eigendur af TV 2 í Noregi og TV 2 í Danmörku.


Dásamleg dönsk sveit

Nú er ég staddur í bænum Skjern á Jótlandi í Danmörku. Þar dveljum við í húsi Vignis, bróður hennar Rósu, sem spilar hér handbolta. Þetta er frábært umhverfi til að vera í fríi. Vignir er sjálfur fjarri góðu gamni en auk okkar fjölskyldunnar er vinafólk okkar líka hér - hjón með unglingsstúlku og tvo stráka, sex og þriggja ára. Við fórum í Legoland á fimmtudaginn sem var mjög skemmtilegt en annars hefur þetta verið að mestu.

Mér skilst að á þessum ferðum erlendis hafi ég misst af einni mestu veðurblíðu síðari ára í höfuðborginni. Mér er bara slétt sama. Ég hefði aldrei náð að slappa svona vel af á Íslandi - maður hefði alltaf verið með hugann við vinnuna.

Það er samt einn galli við svona frí - þau eru alltof fljót að líða.


Noregsblogg

Þessi færsla er skrifuð frá Ulvik, innst inni í Harðangursfirði í Noregi, þar sem við fjölskyldan erum í heimsókn hjá mákonu minni og hennar fjölskyldu. Vika er liðin af fríinu langþráða og þrátt fyrir að grenjandi rigning hafi verið síðustu þrjá daga hefur fríið hingað til staðið undir væntingum.

Flugum til Billund á miðvikudaginn var og keyrðum þaðan til Hirtshals. Það er afar gott að keyra í Danmörku - allt svo flatt. Ég hef aldrei komið til Jótlands áður, og reyndar lítið sótt heim danskar sveitir. Ökuferðin var hin sæmilegasta þó að Sif hafi látið ófriðlega framan af - enda er hún ekki hrifin af löngum bílferðum.

Gistum á fínu gistiheimili í Hirtshals, Hotel Skagerak, og síðan var skipið tekið á fimmtudagsmorguninn til Bergen, en þangað er tæplega sólarhrings sigling. Colorline heitir fyrirtækið sem sér um rekstur skipsins. Þetta var hin fínasta sjóferð - ágætis staðir til að fá sér að borða og nóg um að vera fyrir börnin. Káetan var líka fín og sjóferðin var þægileg. Það er því óhætt að mæla með þessum ferðamáta - þetta var ólíkt gáfulegra en að keyra alla leiðina miðað við hvernig Sif er í bíl. Það er þó eitthvað sem ég væri alveg til í að prófa síðar.

Við komum til Bergen á föstudaginn í glampandi sól og keyrðum þaðan beint til Ulvik. Vorum þar í sól fyrstu þrjá dagana, en síðan þá hefur rignt. Líf hefur leikið sér mikið við Ölmu frænku sína, sem er tveimur árum yngri, og Sif hefur unað sér vel í garðinum - sama hvort það hefur verið sól eða rigning.

Fréttafíkillinn ég hef þó ekki getað slitið mig frá íslenskum fréttavefjum og reynt að fylgjast með fréttum og hlusta á fréttir Útvarpsins. Guði sé lof fyrir Internetið!

Hér erum við annars í mjög góðu yfirlæti. Á mánudag höldum við svo aftur af stað - tökum sama skipið til Hirtshals aftur og keyrum svo til Skjern, þar sem við verðum restina af fríinu, eða í rúmar tvær vikur.


Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband