Orlofið búið

Fæðingarorlofinu er nú að ljúka og á morgun er fyrsta vaktin á fréttastofunni. Það verður gott að komast í hversdagsleikann aftur og enn betra að fara að skrifa einhverjar fréttir og tala við fólk aftur

Nú er Sif byrjuð á fullu hjá dagmömmunni og líkar ljómandi vel þar. Meira að segja svo vel að hún fór að skæla þegar ég kom að sækja hana í dag. En jafnaði sig fljótt.

En það taka svo merkilegri hlutir við um helgina því að ég verð á Anfield á laugardaginn að sjá mína menn rassskella granna sína í Everton. Það verður eflaust spennandi, Hef aldrei séð leik gegn Everton á Anfield og reikna með svakalegustu stemningu sem ég hef upplifað.

Og þar með er þessari færslu um allt og ekkert lokið.


Allt á uppleið

Lögin í kvöld voru töluvert betri en vikunni á undan. Svei mér þá ef flest lögin í þessum þætti hefðu ekki komist áfram ef þau hefðu verið í þættinum fyrir viku.

Ég er nokkuð sáttur við valið á þeim þremur lögum sem komust áfram. Þegar lögin höfðu hljómað var ég alveg viss um að þetta væri spurning um hvaða lag færi með lögum Jónsa og Eiríks Haukssonar. Fannst bæði lag Vonar og Friðriks Ómars koma til greina og það fór svo að Friðrik Ómar fór áfram. Rokklagið hefði sennilega náð lengra ef söngvarinn hefði verið kraftmeiri. Fannst vanta töluvert upp á flutning lagsins.

En þetta er í það minnsta töluverð framför frá því sem boðið var upp á í vikunni á undan.

***

Annars var þetta sjónvarpskvöld notað til að hvíla lúin bein eftir afmæli dagsins, en í dag var haldið upp á eins árs afmæli Sifjar. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að heilt ár sé liðið síðan hún fæddist. En tíminn hefur liðið svakalega hratt síðan þá. Sif virtist hin ánægðasta með afmælið en var eins og vanalega mest fyrir hollustuna - gat aðeins borðað einn bita af súkkulaðikökunni en hakkaði hins vegar í sig gerbollurnar.

Ætli ég sé að ala upp eitthvað heilsufrík?


mbl.is Tveir Eurovisionfarar í úrslit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöð 2 saknar mín

Fékk dramatískt bréf frá Stöð 2 inn um lúguna hjá mér í gær og var yfirskriftin: "Við söknum þín!" Ástæðan er sögð sú að ég hafi verið í M12 og einn af bestu viðskiptavinum þeirra. Síðan er mér boðið að fá Stöð 2 og Stöð 2-Bíó til 5. apríl á 6.990 krónur, sem almennt kostar 18.500 krónur. Tilboð sem vissulega er freistandi, en ég ætla ekki að láta freistast.

Síðan segir einnig í bréfinu: "Ef ástæða uppsagnar þinnar á sínum tíma var óánægja, þá þætti okkur vænt um ef þú sæir þér fært að segja okkur hvað það var sem þér fannst ábótavant. Lykillinn að betri þjónustu er að vita hvernig við stöndum okkur."

Eins og kemur fram í þessari færslu á gömlu síðunni minni, þá sendi ég 365 tölvupóst þar sem ég útskýrði óánægju mína. Engin viðbrögð komu frá þeim þá, og því fannst mér þetta ekkert sérstaklega trúverðugt. Þá er ástæðan líka sú að við frúin komumst að því að við horfðum aðeins á tvo þætti á Stöð 2 - 24 og Grey's Anatomy. Það réttlætir hreinlega ekki þessi útgjöld.

Stöð 2 verður því bara að sakna mín áfram - tilfinningin er í það minnsta ekki gagnkvæm.


Meiri handbolti

Ég held að ég geti lítið bætt við það sem margir aðrir hafa sagt um þennan ótrúlega leik í gær. En ég held að það segi sitt að við spiluðum það vel að við vorum næstum því búnir að senda Frakka heim, og þar með gera okkur stigalausa í milliriðlinum!

Það eina sem ég hef við þetta að bæta er að vonandi hafa menn ekki klárað alla bensíndropana í þessum leik. Eitthvað verður að vera eftir fyrir milliriðlana, sérstaklega fyrir leikina gegn Þjóðverjum og Pólverjum.


Handbolti, júróvísjón og veikindi

Mikið svakalega var svekkjandi að horfa upp á þennan leik í gær. Það var talað um að ef Úkraínumenn lentu í mótlæti myndu þeir brotna. En það var einmitt það sem kom fyrir Íslendingana. Eftir að Úkraínumenn náðu 4-5 marka forskoti var eins og algjört vonleysi gripi um sig. Enginn karakter í liðinu. Það er ekki gott. Þetta stefnir semsagt í algjört vonbrigðamót.

***

Eurovision-lögin í gær voru flestöll afar slöpp. Ég vil hreinlega ekki trúa því að eitthvað hafi ekki fundist nothæft annað í þeim lögum sem send voru inn. Úrslitin voru svosem réttlætanleg, en ég hefði þó kannski heldur viljað lag Hreims fara áfram í staðinn fyrir lagið sem Sigurjón Brink söng. Ef það hefði gert þá hefðu einu lögin sem höfðu einhver viðlög sem varið var í komist áfram.

Vonandi verður boðið upp á eitthvað skárra um næstu helgi.

***

Sif er búin að vera með hita alla vikuna en er að losa hann úr sér núna og fer til dagmömmunnar á morgun. Þar heldur aðlögunin áfram.

En nú er Rósa lögst í flensu. Er afar slöpp og hefur legið fyrir í allan dag, eða raunar meira og minna síðan í gærkvöldi þegar henni sló niður. Til öryggis er ég búinn að taka eitt viskíglas til að tryggja að ég fái ekki þessa flensu frá henni.


Lesið í fréttaflutning

Menn virðast ansi oft falla í þá gildru að reyna að lesa í fréttaflutning fjölmiðla og komast síðan að þeirri niðurstöðu að fréttaflutningurinn sé ekki hlutlægur. Þetta gerist til dæmis oft hjá fólki sem hefur sterkar skoðanir á ákveðnum málum.

Skýrt dæmi um slíkt að mínu mati er þessi færsla Andreu Ólafsdóttur, sem er frambjóðandi fyrir vinstri græna. Þar segir hún "Fréttastofu RÚV" (dreg þá ályktun að hún sé að tala um fréttastofu Sjónvarpsins en hún ætti að vita að það eru tvær fréttastofur á RÚV) með ólíkindum hlutdræga í upprifjun sinni á stóriðju- og virkjanaatburðum ársins 2006 í fréttaannálnum. Ég varð ekki var við slíka hlutdrægni, en ég hef heldur ekki jafn sterka skoðun á þessum málum og Andrea greinilega hefur.

En rök Andreu voru semsagt þau að lítið hafi verið sýnt frá mótmælum gegn virkjunum. Meðal annars hafið lítið verið sýnt frá mótmælum við Kárahnjúka í sumar og ekkert frá mótmælagöngu Ómars Ragnarssonar. Reyndar hafa fleiri orðið til að gagnrýna það að ekkert kom um göngu Ómars í annálnum.

Rétt er að benda Andreu á það að í annál Fréttastofu Útvarpsins var gerð nokkuð ítarleg grein fyrir mótmælunum við Kárahnjúka. Hins vegar var ekki minnst á göngu Ómars, sem eftir á að hyggja hefði átt að gera. En það er alltaf erfitt að meta hvað á að sleppa inn í svona annála og hvað ekki.

Í einni athugasemdinni við færslu Andreu kom fram sú skoðun að RÚV hefði frekar verið með áróður gegn Kárahnjúkavirkjun. Þannig að fyrst fólk hefur svona álíka skoðanir á fréttaflutningi, hlýtur hann að koma öllum sjónarmiðum nokkuð vel á framfæri.

En þetta er ekki eina tilvikið sem slíkt hefur átt sér stað. Hnýtt hefur verið bæði í fréttastofur RÚV og fjölmiðla 365-miðla fyrir fréttaflutning þeirra af RÚV-frumvarpinu. Og þar hafa menn líka verið að horfa of mikið í það hvaða miðill er að flytja fréttina, en ekki hvað hann er að segja. Menn ganga hreinlega að því vísu að fjölmiðlarnir flytji fréttir sem þjóni hagsmunum þeirra best, og lesa svo fréttirnar með það í huga.

Ég held að það yrði algjörlega vonlaust fyrir RÚV og 365 að flytja fréttir af þessu máli án þess að eitthvað yrði hnýtt í fréttaflutning þeirra. Og það er af því að menn hugsa meira um hvaða fjölmiðill er að flytja fréttina og hvaða hagsmuna hann hefur að gæta að viðkomandi máli. Það er slæmt þegar menn geta ekki litið fram hjá því þegar fréttir fjölmiðlanna eru skoðaðar.


Snjór

Það er snjóvesen í innkeyrslunni við fjölbýlið sem ég bý í. Fyrir nokkrum dögum skóf í stóran skafl við bílastæðið fyrir framan íbúðina mína og svo harðnaði snjórinn þannig að nú er illfær skafl í stæðinu. Það tókst að koma station-bílnum okkar úr úr stæðinu en minni bíllinn hefur ekki verið hreyfður. Það sem Sif hefur verið veik þessa vikuna og ekkert farið til dagmömmunnar hefur ekkert þurft að hreyfa þennan bíl svo að hann er því látinn vera þar.

Þar sem ekki hefur verið mikið um snjóþyngsli síðustu árin hafa þetta verið nokkur viðbrigði. En í það minnsta hefur bærinn staðið sig ágætlega í að moka snjóinn af götunum, ólíkt því sem var fyrr í vetur.

Heilsufar Sifjar hefur hins vegar haft áhrif á aðlögun hennar hjá dagmömmunni en hún hefur ekki verið hjá henni síðan á föstudaginn var og fer ekki aftur til hennar fyrr en eftir helgi þar sem hún var með hita í dag. Hvaða áhrif þetta hefur á aðlögunina veit ég ekki. En vonandi verða þau engin.

Já, svona er hægt að tengja eina fblöggfærslu úr snjóþyngslum í dagmömmuvist dótturinnar!


Að deyfa þor fréttamanna

Minn gamli yfirmaður, Össur Skarphéðinsson, sagði á heimasíðu sinni að ummæli Páls Magnússonar deyfðu þor fréttamanna RÚV til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Í síðdegisútvarpinu tók hann dæmi af ungum fréttamanni sem væri að stíga sín fyrstu spor og framtíð hans væri í hendi Páls Magnússonar.

Ég er ekki viss um að ég myndi teljast í þessum hópi. Ég er ekki að stíga mín fyrstu spor í fréttamennsku þó að ég sé að gera það hjá RÚV. En ég hef aldrei upplifað stöðu mína þannig að framtíð mín sé í hendi Páls Magnússonar. Ég hef fyrst og fremst litið svo á að framtíð mín hjá RÚV sé fyrst og fremst í mínum höndum. Ef ég skila góðu starfi verð ég þar áfram, annars ekki. Og sú staða breytist ekkert þó að Páll Magnússon segi sínar skoðanir á RÚV-frumvarpinu. Það hefur hann gert áður og það hefur ekki haft nein áhrif á mig þegar ég hef þurft að fjalla um þetta mál.

Mér finnst ekki gott til þess að vita að Össur, sem ég hef miklar mætur á eftir að hafa unnið með honum á DV, hafi ekki meira álit á fréttamönnum Ríkisútvarpsins en þetta. Hann sagðist reyndar hafa mikið álit á Fréttastofu Útvarpsins og er það þakkarvert. En skoðanir Páls Magnússonar draga ekki úr mínu þori!


Umræða um ekki neitt

Er að horfa á umræður á Alþingi um Ríkisútvarpið ohf. Skipti þangað yfir að loknum tíu-fréttum. Nú er klukkan hálf ellefu og allar umræðurnar hafa verið um fundarstjórn forseta. Allir sem komið hafa í pontu meðan ég hefur verið að horfa á hafa verið úr stjórnarandstöðunni og hafa sagt það sama - það sé ekki rétt að halda áfram fundi núna og þeir vilja fá svör frá þingforseta um hversu lengi hann ætlar að halda fundi áfram. Sá sem situr á forsetastóli, Birgir Ármannsson, hefur ekki svarað því ennþá þegar þessar línur eru skrifaðar.

Það er ekkert skrítið að umræður um þetta mál taka langan tíma þegar menn taka góðan tíma í að ræða svona hluti.

Í einni ræðunni sem ég hef hlustað á hafði Steingrímur J. Sigfússon áhyggjur af þvi að afskipti Páls Magnússonar útvarpsstjóra af þessu máli settu starfsmenn fréttastofanna hjá stofnuninni í vanda þar sem þeir þyrftu að fjalla um málið. Ég get svarað þessu fyrir mig - það er auðvitað alltaf ákveðinn vandi þegar fréttastofa þarf að fjalla um mál sem varðar það fyrirtæki eða stofnun sem hún tilheyrir. En sá vandi hvorki eykst né minnkar við það að Páll Magnússon segir eitthvað um frumvarpið. Það hefur akkúrat engin áhrif á umfjöllunina.

Nú er Birgir Ármannsson búinn að segja að ekki eigi að ræna þingmenn nætursvefni en umræða eigi að halda áfram um sinn. Skemmtilega loðið og teygjanlegt svar. Samt er enn verið að ræða fundarstjórn forseta nú kl. 22:40, og umræðuefni er enn það sama. Magnað!


Verðum við loksins samkeppnishæfir?

Jæja, þá er það loksins að verða að veruleika að fjármunir eru á leið í Liverpool. Þetta þýðir að Liverpool verður loksins samkeppnisfært um að kaupa bestu leikmennina á markaðnum. Þetta gæti orðið upphafið að því að við náum loksins langþráðum Englandsmeistaratitli.

Benítez er nýlega búinn að tala um það að hann hafi ekki getað keypt leikmenn sem hann hafi verið á höttunum eftir því að þeir kostuðu of mikið. Eftir þetta ætti það ekki að vera vandamál lengur.

Ég er afar kátur núna!


mbl.is Allar líkur á að emírinn í Dubai eignist Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband