Besti tónninn hljóðnaður

Michael Brecker er látinn. Það er mikil eftirsjá í þessum saxafónleikara. Það voru 4-5 saxafónleikarar sem ég hlustaði hvað mest á þegar ég var í námi í FÍH. Michael Brecker var einn þeirra.

Það sem var mest heillandi við hann er þessi fallegi tónn sem hann hafði, og lagði mikið upp úr því að gera sífellt betri. Þetta þétta sánd í tóninum var það sem var heillandi við að hlusta á hann. Ég á reyndar aðeins eina sólóplötu með honum og svo aðra undir nafninu Brecker-brothers, þar sem hann spilar með Randy bróður sínum.

Það var reyndar ekki fyrr en ég fór að hlusta á hann í FÍH sem ég uppgötvaði að Brecker lék á saxafón í laginu Your latest trick með Dire Straits, sem er ein af mínum uppáhalds hljómsveitum.

Mér finnst Mogginn reyndar gera heldur lítið úr honum með því að minnast ekki á að hann hafi nú gefið út ýmislegt undir eigin nafni en ekki aðeins spilað hjá öðrum. En umfjöllun um erlendan djass á því miður heldur undir högg að sækja í íslenskum fjölmiðlum - það er held í djassþáttum rásar eitt sem hann fær pláss.

Skora hér með á Lönu Kolbrúnu Eddudóttur að gera góðan þátt tileinkaðan Michael Brecker fljótlega.


mbl.is Saxófónleikarinn Michael Brecker látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófærð

Nú er snjór yfir öllu og það á víst að halda áfram að snjóa í einhverja daga í viðbót. Og öllum bregður alveg svakalega við að það sé kominn vetur á Íslandi.

Þetta virtist meðal annars hafa komið fyrir snjómokstursmenn í Hafnarfirði, eða þá sem þeim stjórna.

Í nóvember munaði engu að við kæmumst ekki í fjölskyldumyndatöku sem við höfðum pantað í maí, vegna þess að við komumst ekki úr götunni okkar vegna snjóþyngsla. Þá kom það í ljós að snjómokstursmennirnir höfðu látið duga að moka strætóleiðir en látið aðrar götur, að minnsta kosti í mínu nágrenni, eiga sig. Þetta bjargaðist reyndar, þökk sé Daníel mági mínum sem á jeppa og gat sótt okkur.

Þegar mikil ofankoma varð svo í þessari vikur var hins vegar búið að moka göturnar þegar ég lagði af stað með Sif til dagmömmunnar. Hvort að það hafi eitthvað með það að gera að það var vikur dagur í þessari viku en sunnudagur í fyrra tilvikinu veit ég ekki. En allavega voru viðbrögðin mun meira í takt við það sem til var ætlast í seinna tilvikinu.

Hvað ætli þessi snjór endist lengi?


Enskukunnátta

Verð að benda á þetta myndband. Þetta er einfaldlega drepfyndið. Ætli það hafi verið ætlunin að dreifa þessu eitthvað víða til kynningar?

Ferð bókuð um páskana

Þá er búið að bóka ferð til Flórída um páskana. Við fjölskyldan fórum síðast (og reyndar í fyrsta skiptið) þangað fyrir tveimur árum og það kom okkur skemmtilega á óvart hvað það er gott að vera þarna, svona miðað við ýmislegt sem gengur á í Bandaríkjunum. Nú verður þetta nokkuð öðruvísi en þá þar sem Sif er komin til sögunnar, en vonandi þolir hún ferðalagið sæmilega. Það er líka ágæt tilhugsun að fá smá sól svona áður en sumarið byrjar á Íslandi - en reyndar eru einnig plön um utanlandsferðir í sumar sem vonandi ganga eftir.


Steinrunninn á Players

Ég sast nánast sem steinrunninn á Players í gærkvöldi þegar ég sá mína menn kjöldregna af unglingaliði Arsenal. Vissulega voru nokkrir varamenn í liði minna manna en engu að síður er fáránlegt að fá á sig sex mörk á móti þessu liði.

En eins og í fyrri leiknum var það varnarleikurinn sem varð okkur að falli og þegar andstæðingurinn skorar sex mörk í sjö tilraunum segir það sitt um hver varnarleikurinn er.

Ætla ekki að fara nánar út í frammistöðu einstakra leikmanna og vil helst gleyma þessum leik sem fyrst.


Aðlögun

Sif, yngri dóttir mín, sem verður eins árs í lok mánaðarins, byrjaði í gær í aðlögun hjá dagmömmu, sem er auðvitað stórt skref í lífi barns (og kannski enn stærra hjá foreldrum). Nú verður hún semsagt tekin í smáum skrefum þar til hún er tilbúin til að vera allan daginn.

Okkur Rósu hefur fundist Sif vera orðin tilbúin til að fara að leika sér við önnur börn og vonandi mun þessi aðlögun ganga eins og hún á að ganga. Það skemmtilega við þessa dagmömmu sem hún er hjá (sem eru reyndar mæðgur) er að það eru tíu börn hjá  henni - allt stelpur. Ætli það sé gott eða slæmt fyrir barnið?


Var ég úti á þekju?

Niðurstöður könnunar Gallup fyrir Fjölmiðlavaktina um stærsta fréttamálið 2006 verða að teljast mjög athyglisverðar. Langflestir telja Baugsmálið stærsta fréttamálið, en á eftir koma Kárahnjúkar og Byrgið. Önnur mál sem nefnd voru eru meðal annars olíusamráð, fjölmiðlafrumvarpið, Árni Johnsen, og hlutafélagavæðing RÚV.

Var fólki þá slétt sama um að herinn væri að fara og að Halldór Ásgrímsson sagði af sér? Eða var fólk kannski bara búið að gleyma því?

Þessi tvö mál voru þau sem mestur tími fór í í innlendum fréttaannál Fréttastofu Útvarpsins, sem ég sá um. Kannski var ég bara gjörsamlega úti á þekju þegar ég ákvað að eyða svona miklu plássi í þessi mál?


mbl.is Baugsmálið stærsta fréttamálið 2006 að mati almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlaumfjöllun um ráðamenn

Í bloggheimum hefur mikið verið rætt um grínið sem tengist Margréti Frímannsdóttur og Telmu Ásdísardóttur á Múrnum. Ég ætla ekki að blanda mér beint í þá umræðu en það sem vakti athygli mína eru mikil hróp eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið.

Björn Ingi Hrafnsson sagði meðal annars í pistli sínum um málið frá því í gær.

Svo merkilegt sem það nú er, hefur enginn fjölmiðill séð ástæðu til að ræða við höfunda greinarinnar á Múrnum, t.d. Katrínu Jakobsdóttur, sem er hvorki meira né minna en varaformaður VG. Og á meðan ekkert hljóð heyrist úr horni Múrsins, stendur greinin og hin ósmekklegu ummæli vitaskuld enn og óhögguð.

Og síðar kemur svo þetta:

Halda menn virkilega að stjórnmálamenn á borð við Halldór Ásgrímsson, Davíð Odsson eða Björn Bjarnason hefðu getað látið hafa slíkt eftir sér án þess að fjölmiðlar hefðu gert úr því stórfréttir? Og kannski hefði verið efnt um umræðna í þinginu utan dagskrár?

En þegar um er að ræða varaformann VG, sem setur á prent ótrúlega smekklaus ummæli um merka stjórnmálakonu í landinu og tengir hennar málefni við þrautir landskunnar baráttukonu með þeim hætti að mann setur hljóðan, þá heyrist ekki neitt.

Í þessu tilfelli er þögnin svo sannarlega ærandi.

Þessi röksemdarfærsla finnst mér hæpin, þó að Stöð 2 og Fréttablaðinu hafi greinilega ekki fundist það, því að þessir fjölmiðlar tóku málið upp í kjölfarið.

Það er nefnilega alls ekki sami hluturinn að varaformaður stjórnarandstöðuflokks skrifi undir svona skrif og að ráðherra í ríkisstjórn geri það. Ef ráðherrar gera slíkt, er það að sjálfsögðu mun líklegra til að verða að frétt vegna stöðu viðkomandi einstaklings.

En Björn Ingi er reyndar ekki einn um að vera hissa á því að meira sé fjallað um þá sem eru við völd en hina sem eru það ekki. Þegar ég starfaði hjá Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi kom einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði að máli við mig og sagði að það væri Samfylkingarfnykur af blaðinu. Ég var hissa á þessum ummælum, því að nokkrum dögum áður hafði ég fengið hrós frá oddvita Sjálfstæðisflokksins fyrir að fjalla málefnanlega um bæjarmálin. Þegar ég bað bæjarfulltrúann um að útskýra mál sitt betur sagði hann: "Þú skrifar svo mikið um það sem bæjaryfirvöld eru að gera!" Fátt var hins vegar um svör þegar ég spurði á móti hvort að hann héldi að ég myndi ekki líka gera það ef Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd.

Það er sagt á hátíðarstund að hlutverk fjölmiðla sé að veita stjórnvöldum aðhald. Og eðli málsins samkvæmt eru þeir sem eru við stjórnvölinn, hvort sem þeir eru ráðherrar eða í meirihluta í borgarstjórn, meira undir smásjánni og þar af leiðandi meira í fjölmiðlum. Og þá gildir í sjálfu sér einu hvort þeir eru að gera eitthvað gott eða slæmt.

Með þessu er ég ekki að segja að það hafi ekki verið ástæða til að taka þetta tiltekna Múrsmál upp. En það er ekki hægt að bera það saman við að ráðherrar í ríkisstjórn geri eitthvað sem orki tvímælis, eins og Björn Ingi er að gera.


Tap á mistökum

Tap minna manna gegn Arsenal í gær var sorglegt. Það er ferlegt að stjórna leiknum, sækja mun stífar en andstæðingurinn en ná ekki að skapa sér nógu mikið af almennilegum færum. Síðan er þetta allt skemmt með barnalegum mistökum í vörninni.

Í fyrsta markinu var Riise gjörsamlega úti á þekju, fyrst með því að tapa boltanum á miðjunni og síðan með því að missa sjónar á manninum sem hann átti að dekka. Í öðru markinu gerði öll vörnin sig seka um að horfa á Rosicky leika sér með boltann og skjóta og í þriðja markinu gerir Carragher ótrúleg mistök á móti besta framherjanum í enska boltanum. Þetta er mjög ólíkt vörn Liverpool en þessi mistök voru okkur svakalega dýr.

Nú er bara að koma fram hefndum gegn þeim á þriðjudag - þó að ég hefði frekar viljað halda áfram í þessari keppni en deildarbikarnum.


Stórleikur

Já, er ekki vert að minna á stórleik Liverpool og Arsenal í deildarbikarnum á morgun?

Mér fannst reyndar pínu fyndið að sjá þegar sýnt var úr bikarúrslitaleikjunum í kynningartrailernum á Sýn. Hjá Liverpool var sýnt markið hans Gerrard og þegar hann klappaði á eigið bak. Hjá Arsenal - vítaspyrnur!!!

Eins og menn muna var sigur Arsenal í bikarnum sá ósanngjarnasti í sögu keppninnar. United lá í sókn allan tímann en gat ekki skorað, og Arsenal tók þetta í vítakeppni. Þrátt fyrir það heyrir maður Arsenal-menn ennþá væla yfir tapinu fyrir Liverpool í bikarúrslitaleiknum 2001. Það var leikur þar sem Arsenal var klárlega betri aðilinn en nýtti ekki færin og Liverpool hirti bikarinn. En Liverpool náði þó að skora tvö mörk í venjulegum leiktíma - nokkuð sem Arsenal gat ekki gert í 120 mínútur 2005.

En allavega - ég býst við spennandi leik á morgun. Megi betra liðið vinna.


mbl.is Bikarvörn Liverpool hefst gegn Arsenal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband