Föstudagur, 5. janúar 2007
Persónulegur annáll
Þar sem ég sá nú um innlendan fréttaannál Fréttastofu Útvarpsins, er við hæfi að ég haldi annálaskrifum áfram og líti um öxl yfir árið sem nú er nýliðið.
Ég get ekki annað en hugsað til ársins 2006 með mikilli hlýju, bæði í einkalífinu og starfinu. 27. janúar fæddist Sif og hefur hún fært aukna gleði í líf fjölskyldunnar. Einkalífið hefur mikið snúist um þennan nýja einstakling en þó gerðist margt fleira ánægjulegt þar. Ég er þó aðallega ánægðastur með að hafa tekið þrjá mánuði í fæðingarorlof (sá þriðji er reyndar rétt nýbyrjaður), sem ég tel að hafi verið afar dýrmætt upp á sambandið við Sif. Þegar Líf fæddist var feðrum aðeins boðið upp á tveggja vikna fæðingarorlof, og ég var þá nýbyrjaður í nýju starfi og fannst ekki taka því að taka þetta orlof. Þetta er því gríðarlegur munur.
Í mars byrjaði ég svo að vinna hjá fréttastofu Útvarpsins eftir að hafa starfað hjá Víkurfréttum í þrjú ár. Þetta reyndist góð tilfærsla og finnst mér ég vera á réttum stað hjá Útvarpinu. Ekki aðeins af því að mér finnst þetta henta mér persónulega heldur er afar góður andi á þessum vinnustað og mikill metnaður. Það hefur verið lærdómsríkt að vinna þarna og verður það vonandi næstu árin líka.
Í mars gerðist það einnig að ég byrjaði í líkamsrækt. Ég hafði alltaf haft hálfgerða fordóma gagnvart slíku en nú reyni ég að fara eins oft og ég get. Þetta hefur í það minnsta borið þann árangur að ég hef fengið komment frá kunningjum sem finnst ég hafa lagt af. En aðalmarkmiðið var að bæta þolið og það hefur líka tekist þokkalega. En mest er þó vellíðanin að lokinni æfingu þegar maður hefur létt á allri spennu í líkamanum með átökunum. Það verður í það minnsta framhald á þessu.
Eini ókosturinn við þetta ár var að ég fékk nánast ekkert sumarfrí, þar sem ég skipti um starf í mars. Ég náði þó að kría út eina viku sem var notuð í sumarbústað í Skorradal. Það var mjög ljúft.
Búist er við að þetta nýja ár verði rólegra en það fyrra. Þegar er stefnt að tveimur utanlandsferðum, Flórída um páskana og Danmörk og Noregur í júlí. Nú tekur maður semsagt alvöru sumarfrí. Svo er það bara markmiðið að reyna að bæta sig enn meira í starfinu og einkalífinu.
Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Safndiskar
Enn er vinsælt að gefa út safndiska. Maður hélt að á tímum netsins og mp3-spilaranna myndi eitthvað draga úr vinsældum þessara diska, en það er öðru nær, eins og sést hvað best á því að einn af söluhæstu diskunum fyrir nýliðin jól var safn 100 íslenskra jólalaga - sem mörg hver hafa komið út á ansi mörgum safndiskum áður.
Ég tók dæmi af handahófi með jólalagið Hátíðarskap með Þú og ég, sem er sennilega það jólalag sem er mér hvað mest að skapi og kemur mér í hvað mesta jólaskapið. Á tónlist.is má sjá það á sex safnplötum, og er ég viss um að sá listi er ekki tæmandi. Það er því ekki ósennilegt að margir eigi sama lagið heima hjá sér á tveimur og jafnvel fleiri diskum.
Af hverju kaupa menn ennþá þessa diska í gríð og erg þegar hægt er að ná í þessi lög á netinu, t.d. á tonlist.is, fyrir hagstæðara verð (þó að það sé reyndar ekki algilt)?
Sjálfur keypti ég nokkra safndiska þegar ég keypti hvað mest af geisladiskum almennt fyrir 10-15 árum. Þar sem ég er að dæla allri tónlist sem ég á inn á Ipod-inn minn núna fór ég í gegnum nokkra. Þarna má finna perlur eins og Bjartar nætur, Diskóbylgjan, Fyrstu árin, Aldrei ég gleymi og Í sumarsveiflu svo eitthvað sé nefnt. Þetta eru diskar sem ekki nokkur maður man eftir í dag.
Safndiskar eru eitthvað sem plötuútgefendur virðast gefa út í því skyni að græða sem mest með sem minnstri fyrirhöfn. Og ef útgáfan er vel heppnuð, eins og þetta jólalagasafn augljóslega var, er það í góðu lagi. En hvað ætli sé hægt að fá Íslendinga til að kaupa sama lagið oft af mismunandi diskum?
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 4. janúar 2007
Flutningar
Á nýju ári er ég fluttur í ný heimkynni. Vona að samskipti mín við Moggann gangi betur en við blogger undir það síðasta.
Að þessu tilefni er rétt að setja hér inn færsluna sem átti að koma inn fyrir nokkrum dögum, en blogger neitaði að birta.
(P.S.: Ef einhver hefur flutt færslur af blogspot yfir á Moggann mætti sá gjarnan senda mér leiðbeiningar á hallgrimur@liverpool.is. Tilraunir mínar gengu ekki upp)
Íþróttamaður ársins
Enn er það vinsælt að kvarta yfir valinu á íþróttamanni ársins. Kommentakerfi þeirra bloggsíðna sem ég les hafa verið yfirfull af hneykslunarröddum yfir því að handboltamaður sé enn einu sinni kostinn, að heimsmeistaratitill hafi aðeins dugað í áttunda sætið og að íþróttafréttamenn hafi eitthvað á móti konum og fólki sem stundar ekki boltaíþróttir.
Mér fannst þetta val hins vegar mjög fyrirsjáanlegt og fagnaði því. Guðjón Valur átti þetta innilega skilið fyrir að vera valinn bestur í einni sterkustu handboltadeild heims, ná Evróputitli með sínu félagi og vera markakóngur.
En þegar valið fer fram lenda íþróttafréttamenn í því að þurfa að bera saman íþróttagreinar. Það er erfitt og það sem sumum finnst sambærilegt finnst öðrum ekki. Ég er til dæmis persónulega þeirrar skoðunar að það að skara svona fram úr í einni sterkustu handknattleiksdeild heims sé meira afrek en heimsmeistaratitill í íþrótt sem er stunduð af færri einstaklingum en handboltinn. Og þetta segi ég með fullri virðingu fyrir frábært afrek Auðuns á árinu. En afrek Guðjóns var að mínu mati meira.
En við hvað á að miða þegar íþróttagreinar eru bornar saman? Fjölda þeirra sem stunda hana? Þá hefði Eiður Smári klárlega átt að vinna. Hversu erfið íþróttagreinin er? Í hversu sterkum hópi íþróttamaðurinn er? Þetta er alltaf matsatriði, og verður þar af leiðandi alltaf umdeilt.
Það er hins vegar mjög fyndið að heyra þau rök að íþróttafréttamenn sjái ekkert nema boltaíþróttir í ljósi þess að hvorki handboltamenn né knattspyrnumenn hafa verið oftast valdir, heldur frjálsíþróttamenn. Og ef einhver frjálsíþróttamaður hefði til dæmis náð á verðlaunapall á stórmóti er alveg eins víst að það hefði komið honum upp fyrir Guðjón Val í kjörinu.
***
Í janúar tek ég síðasta mánuðinn af fæðingarorlofinu og fer hann í að taka aðlögun Sifjar sem byrjar þá hjá dagmömmu. Ekki er þó ósennilegt að tíminn verði einnig notaðir í að skrifa bókina góðu. Það liggur við að ég kunni ekki við að taka svona mikið frí frá vinnu sem ég er til þess að gera nýbyrjaður í. En orlofið verður í það minnsta nýtt í hluti sém til er ætlast af því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar