Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 23. október 2007
Heimilisverkefni
Þegar ég er á kvöldvakt er gott að nýta morgnana í ýmis þarfaþing fyrir heimilið. Í dag var mér falið (mér hefði aldrei dottið það í hug sjálfum) að þrífa rimlagardínurnar. Þetta er afar seinlegt og leiðinlegt starf, en miðað við rykið sem hafði safnast á þessum rimlum svo lítið bar á var það greinilega nauðsynlegt. Þá var líka þveginn þvottur (tvær vélar nánar tiltekið).
Á morgun er svo stefnt að því að þrífa grillið, sem löngu er kominn tími til. Það fer þó eftir veðri, þar sem nauðsynlegt er að gera það úti á svölum. Ég leit aðeins ofan í það í dag og miðað við þar er ærið verk fyrir höndum. Veit samt ekki enn hvort að það sé jafn seinlegt og rimlagardínurnar - en það verður í það minnsta ekki þrifalegra.
***
Líf tók upp á því að fá hita á sunnudaginn. Hún lá heima á mánudag en dreif sig svo í skólann í dag. Þetta var nokkuð sjokk því Líf verður aldrei veik og hefur yfirleitt látið yngri systur sína um að ná í allar pestir sem hægt er að ná í. Fyrst þetta gerðist, ætli ég sé þá næstur?
Best að fá sér eitt viskístaup til að koma í veg fyrir að það gerist. Verst að maður getur ekki notað það meðal á yngri fjölskyldumeðlimi!
***
Að allt öðru: Ég er búinn að skella eintaki af plötunni Hvers vegna varst'ekki kyrr? með Pálma Gunnarssyni inn í Ipodinn minn. Þessi plata kom út 1980 en hefur fyllilega staðist tímans tönn. Algjör snilldarplata. Lagið Andartak finnst mér sérstaklega flott.
***
Að þessu sögðu hef ég ákveðið að gera ótímabundið hlé á bloggskrifum. Hef bloggað frekar af hálfgerðri skyldurækni upp á síðkastið og færslurnar verið stopular, þannig að ég ætla að segja þetta gott, í það minnsta þangað til ég nenni að taka þráðinn upp aftur af einhverri alvöru. Þakka lesendum og bloggvinum samfylgdina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 20. september 2007
Ætlar þetta að verða meiðslavetur?
Ég vona að þetta sé ekki forsmekkurinn af því sem koma skal. Tveir leikmenn ristarbrotnir, og áður hefur einn rifbeinsbrotnað, einn nefbrotnað, einn tábrotnað og einn tognað á nára. Enginn þeirra var reyndar eins lengi frá og þeir Alonso og Agger verða núna.
Mér finnst það reyndar sérstaklega mikið áfall að missa Agger. Hann var einn okkar besti leikmaður í fyrra og við missum hraða úr vörninni með því að Hyypia komi inn í staðinn fyrir Agger. En á móti kemur að Hyypia er reynslubolti og hefur bætt hraðaleysið upp með góðum staðsetningum. Við eigum auðveldara með að leysa fjarveru Alonso.
En vonandi verður ekki meira um alvarleg meiðsli hjá okkur mönnum.
Tveir leikmenn Liverpool fótbrotnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 18. september 2007
Konur og RÚV
Loksins þegar ég sest við bloggið er tilefnið skrítin frétt í DV í dag um að konur tolli ekki á RÚV. Þá kemur fram gagnrýni í greininni um að stjórnendur vilji ekki konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir.
Fyrst eru taldar upp þrjár konur sem hafa sagt starfi sínu lausu eða eru á leið frá stofnuninni - Ólöf Rún Skúladóttir, Anna Kristín Jónsdóttir og Hjördís Finnbogadóttir. Það er rétt að Ólöf Rún hefur sagt upp fastri stöðu sinni á fréttastofunni. Anna Kristín og Hjördís hafa hins vegar ekki unnið á fréttastofunni um nokkuð langt skeið (eins og reyndar kemur óljóst fram í greininni) en hafa séð saman um þáttinn Vikulokin. Þær eru í raun núna eins og hverjir aðrir verktakar, þannig að ég er ekki alveg að skilja af hverju þær eru í þessari upptalningu. Björg Eva virðist einhverra hluta vegna samt staðfesta þetta og segir í greininni: "Útvarpið má illa við því að þrjár fréttakonur hætti nú störfum." Það eru ekki þrjár fréttakonur að hætta - aðeins ein.
Síðan eru taldar upp nokkrar konur sem hætt hafa störfum. Eina þeirra þekki ég reyndar ekki, Guðrúnu Eyjólfsdóttur. Björg Eva Erlendsdóttir hætti vegna ósættis. En hvað varðar hinar konurnar sem eru taldar upp þá varð Valgerður Jóhannsdóttir varafréttastjóri Sjónvarpsins og Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður á Sjónvarpinu (semsagt, starfa ennþá á stofnuninni). Sigríður Árnadóttir og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir fóru til Stöðvar 2 og Sigrún Björnsdóttir til Háskóla Íslands. Ég hef ekki heyrt um neitt ósætti við sína vinnuveitendur hjá þessu fólki.
Í greininni er jafnframt talað við Önnu Kristínu og Hjördísi, sem lýsa yfir miklum áhyggjum með hvað konum sé að fækka og Anna Kristín gefur það meira að segja í skyn að stjórnendur hafi engan áhuga á að hafa konur á miðjum aldri í vinnu. Þær virðast hins vegar ekki hafa verið spurðar að því sjálfar af hverju þær hættu störfum. Þær hljóta að geta ályktað út frá eigin starfslokum af hverju þær telja að ástandið sé svona.
Og ef stjórnendur eru svona mikið á móti konum á miðjum aldri, af hverju var þá Guðrún Frímannsdóttir ráðin til starfa á útvarpinu í vor? Og af hverju var Bergljót Baldursdóttir gerð að varafréttastjóra?
Síðan er látið eins og engir karlmenn hafi hætt störfum á fréttastofunni á síðustu tíu árum. En þar er nóg að nefna fólk á borð við Jón Baldvin Halldórsson, Kára Jónasson, Jóhann Hauksson, Ara Sigvaldason, Ólaf Teit Guðnason, Jóhannes Bjarna Guðmundsson, Kristján Kristjánsson, Svavar Halldórsson og Guðjón Helgason. Og sjálfsagt er ég að gleyma einhverjum. Þetta fólk er kannski ekki nógu gamalt (fyrir utan Jón Baldvin, Kára og Jóhann) til að komast í umfjöllunina hjá DV.
Síðan hafa margar hæfar konur verið ráðnar á fréttastofuna upp á síðkastið, eins og fyrrnefnd Guðrún, Kristín Sigurðardóttir og Áslaug Skúladóttir, svo einhverjar séu nefndar. Og ég veit að núverandi fréttastjóri hefur lagt áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni.
Það sem gerir þessa grein svo endanlega þannig að ekki er hægt að taka hana trúanlega er að í undirfyrirsögninni stendur. "Stjórnendur hennar [þ.e. Fréttastofu Útvarpsins] eru gagnrýndir fyrir að vilja ekki hafa konur í starfi sem eru jafngóðar eða betri en þeir sjálfir." Í greininni er hins vegar haft eftir Hjördísi Finnbogadóttur: "Konur fá síður framgang í starfi innan stofnunarinnar, sem á reyndar við í fjölmiðlum almennt, og oft virðist það vera tilhneiging hjá karkynsstjórnendum að vilja ekki vera með konur sem eru faglega jafngóðar eða betri en þeir." (leturbreyting er mín). Semsagt, Hjördís segir þetta eiga við almennt í fjölmiðlum, ekki bara um Ríkisútvarpið.
Ég held reyndar að þetta sem Hjördís bendir á sé lykilatriði. Ef konur fá ekki sömu möguleika á framgangi í starfi og karlar þarf að taka á því. En að fara að taka RÚV sérstaklega fyrir í þessu samhengi er fáránlegt, einkum í ljósi þess að núverandi fréttastjóri hefur lagt sérstaka áherslu á að fjölga konum á fréttastofunni.
Þá má kannski benda á að hjá Stöð 2 hafa fjölmargar konur hætt á síðustu árum, t.d. Elín Hirst, Ólöf Rún Skúladóttir, Hulda Gunnarsdóttir, Rósa Guðbjartsdóttir, Þóra Arnórsdóttir, Sigríður Árnadóttir, Sólveig Ólafsdóttir, Telma Tómasson, Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, Helga Guðrún Johnson og þannig gæti ég haldið lengi áfram. Ætli DV eigi eftir að slá því upp á forsíðunni á morgun?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. júní 2007
Úrskurður á hæpnum forsendum
Þessi úrskurður siðanefndar kom mér á óvart. Mér fannst reyndar fyrsti hluti umfjöllunar Kastljóss um þetta mál ekki nógu vel unninn og full einhliða. En ef þessi umfjöllun telst alvarlegt brot á siðareglum, og það á þeim rökum sem siðanefnd tilgreinir, finnst mér að ansi margt geti þá talist brot á siðareglum.
Fullyrðingin í úrskurðinum um að þetta mál sé sérstaklega vandasöm af því að það er svo stutt í kosningar er klaufaleg. Ég er ekki viss um að meiningin hafi verið að segja að það verði að fjalla öðruvísi um svona mál rétt fyrir kosningar en á öðrum tímum, en þetta orðalag er ekki til sérstakrar fyrirmyndar. Það er líka hægt að skilja Kastljósmenn ágætlega með það að ónákvæmni í upplýsingum í fyrsta hluta umfjöllunarinnar komi til annars vegar af villandi orðalagi í greinargerð og hins vegar að fólk sem leitað var til vildi ekki tjá sig.
Mér finnst yfirlýsing Kastljósmanna líkja hrekja ýmislegt sem stendur í úrskurðinum með tilvitnun beint í umfjöllunina, og það lítur ekki sérstaklega vel út fyrir siðanefndina.
Ég er á því að Kastljósið hefði geta unnið þessa umfjöllun betur. En það er full langt gengið að þetta sé alvarlegt brot. Ef á annað borð var um brot að ræða var það ekki meira en ámælisvert.
Kastljós mótmælir harðlega niðurstöðum og vinnubrögðum Siðanefndar BÍ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 14. júní 2007
Alvöru fréttamenn??
Bloggari hér á Moggablogginu saknar alvöru fréttamanna í fréttum útvarpsins. Hlustaði á útvarpsfréttir fyrir tveimur dögum með notalgíuglampa í augum og saknar þeirra sem eru "eldri en tvævetur". Af orðum hennar mætti ætla að enginn alvöru fréttamaður sé eftir á fréttastofu Útvarpsins, sérstaklega eftir að Björg Eva Erlendsdóttir hætti, sem einhvern veginn (ég skil ekki hvernig) virðist þó hafa farið framhjá þessum ágæta bloggara.
Ég verð að segja að ég skil ekki almennilega hvað fer svona fyrir brjóstið á bloggaranum. Ef hún saknar gamalla fréttahauka, þá eru enn við störf fréttamenn á borð við Brodda Broddason, Arnar Pál Hauksson, Bergljótu Baldursdóttur, Jóhönnu Margréti Einarsdóttur, Svein Helgason, Þórhall Jósefsson, Ólöfu Rún Skúladóttur og Pálma Jónasson (sem er reyndar í löngu fríi en kemur aftur í ágúst). Í erlendum fréttum eru svo menn á borð við Kristján Róbert Kristjánsson, Þorvald Friðriksson og Ásgeir Tómasson. Sjálfsagt gleymi ég einhverjum í þessari upptalningu, en ég held að það búi nóg af reynslu í þessu fólki. Í Speglinum starfa þrautreyndir menn á borð við Friðrik Pál Jónsson, Jón Guðna Kristjánsson og Gunnar Gunnarsson. Allt er þetta þrautreynt fólk. Fréttastofan hefur einnig marga góða yngri einstaklinga eins og Ingimar Karl Helgason, Heiðar Örn Sigurfinnsson, Einar Þorsteinsson, Kristínu Sigurðardóttur, Áslaugu Skúladóttur o.fl., allt toppfólk. Nú er hins vegar sumar, þá er fólk í fríum og því kemur afleysingafólk inn í staðinn.
Það hefur vissulega orðið hreyfing á fólki hjá fréttastofunni og nokkrir reyndir fréttamenn hafa hætt. En það er ekki verra ástand hjá okkur en á öðrum fjölmiðlum. Það er hreyfing á fólki alls staðar.
Bloggarinn klikkir svo út með því að gefa það í skyn að Björg Eva hafi verið tekin af þinginu af því að hún hafi ekki verið nógu þægileg við stjórnarherrana. Ég veit ekki hvernig henni dettur það í hug. Björg Eva er hætt. Það kemur fyrir að fólk hætti, og ekkert óeðlilegt við það. Af hverju að gera það tortryggilegt?
Ég fullyrði að Fréttastofa Útvarpsins er með best mönnuðu fjölmiðlum landsins. Ungt fólk í bland við reynslubolta. Og þannig á það að vera.
Bloggar | Breytt 15.6.2007 kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 30. apríl 2007
Annir og...
Eins og sést á lítilli virkni á þessu bloggi hafa miklar annir sett svip sinn á síðustu daga og vikur.
Undirbúningur að kosningaþætti á fimmtudaginn, bókaskrif og hið hefðbundna brauðstrit hefur tekið allan minn tíma fyrir utan samveru með fjölskyldunni. Gaf mér þó tíma til að detta í'ða með fótboltafélaginu Sheffield Tuesday. Sá eðalfélagsskapur klikkar ekki.
En þar sem kosningar eru á næsta leyti og ég þarf að skila texta að bók innan mánaðar þá verð ég ekkert sérstaklega virkur hér á næstunni (nema að andinn komi yfir mig, sem er óvíst). Þó að nóg sé um að skrifa.
Og hér lýkur efnisminnstu færslu á bloggferli mínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 12. apríl 2007
Venjulegt líf á ný
Lífið er kominn í fastar skorður á ný. Við lentum rúmlega hálf sex á þriðjudagsmorguninn í Keflavík og nú tæplega þremur dögum síðar eru við búin að taka upp úr töskunum, byrja að vinna og jafna okkur á tímamismuninum. Allt því orðið eins og áður.
Flugleiðir fá reyndar ekkert sérstaka einkunn fyrir að skipta um flugvöll frá því síðast, þannig að í stað þess að lenda á alþjóðaflugvellinum í Orlando, sem er hinn glæsilegasti, er nú lent í Sanford, sem er í um klukkutíma akstri frá Orlando og þar að auki á afskaplega óspennandi og leiðinlegum flugvelli.
Þá fær roskna konan sem sat í sætaröðinni fyrir aftan okkur heldur ekki háa einkunn. Líf ætlaði að halla sæti sínu aftur til að reyna að sofa en uppskar það aðeins að konan ýtti sætinu alltaf til baka og gaf okkur nístandi augnaráð. Ég veit ósköp vel að maður er nánast eins og í sardínudós í þessum flugvélum en mér finnst þetta samt dónaskapur. Ég ákvað því að skipta um sæti við Líf þar sem maðurinn í mínu sæti var öllu góðhjartaðri og því náði Líf, og reyndar líka Sif og Rósa, að sofa í 3-4 tíma í vélinni. Ég svaf hins vegar nánast ekki neitt.
Það eru hins vegar annasamir tímar framundan hjá mér. Í vinnunni snýst mikið um kosningarnar og fyrir utan það er ég að skrifa bók sem ég þarf að skila textann af fyrir mánaðamótin maí-júní. En þannig vill maður líka hafa það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Vandasamt mál
Já, það er ekki alltaf tekið út með sældinni að fjalla um hitamál. Og það er eiginlega kominn það mikill hiti í þetta mál að það er alveg sama hvernig maður fjallar um það, það verða alltaf einhverjar óánægjuraddir.
Inn á fréttastofuna hafa borist óánægjupóstar eða símtöl frá öllum þeim sem taka þátt í þessari kosningabaráttu. Það er við því að búast í svona hitamálum.
Á nokkrum bloggsíðum sem ég hef lesið - og reyndar á vef Hags Hafnarfjarðar líka - hef ég hins vegar lesið það viðhorf að Sól í Straumi komist full auðveldlega í fjölmiðlana með sínar skoðanir, sama hvað þeir hafa að segja.
Ég hef gert ansi margar fréttir um þessa kosningabaráttu og get eiginlega ekki setið undir því að ég sé að gera öðrum aðilanum hærra undir höfði en hinum. Það er hins vegar alltaf matsatriði hvað af þeim fjöldamörgu yfirlýsingum sem koma frá öllum aðilum er rétt að setja í fréttir. Og maður stendur og fellur með því mati. Og ég tel mig allavega ekki vera fallinn ennþá.
Vil þó koma með ábendingu vegna yfirlýsingar Hags Hafnarfjarðar um að fréttamenn sem skrifað hafa undir sáttmála framtíðarlands séu að hafa áhrif á fréttaflutning. Hafa þessir fréttamenn verið að fjalla um stækkun álversins?
En þessi kosning verður svakalega spennandi. Og það er gaman að geta tekið þátt í henni...í það minnsta ætti maður með allri þessar umfjöllun að geta tekið nokkuð vel ígrundaða afstöðu.
Stefnir í tvísýnar álverskosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Gulur lækur
Í dag fékk ég það verkefni í vinnunni að skreppa niður á Sólvallagötu og koma beint inn í fréttatímann vegna vatnslekans í miðbænum. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek viðtal við mann í gegnum GSM-síma.
Skömmu áður hafði ég lesið það á mbl.is að skólp hefði lekið í kjallarann. Mér varð svo heldur ekki um sel þegar ég beygði inn á Sólvallagötuna frá Ánanaustum og við blasti gulur lækur sem rann niður götuna.
En í spjalli við slökkviliðið kom hins vegar í ljós að það var ekki klóak sem hafði farið inn í húsið. Ef eitthvað annað en venjulegt vatn væri kjallaranum væri það innihaldið úr göturæsinu.
Mér létti aðeins við þetta. Mig minnti að ég hefði áður séð gulan læk, en þá hafði hann verið gulur vegna einhvers olíuleka en ekki vegna þess að menn og málleysingjar hefðu verið svo duglegir að losa sig við úrgang ofan í lækinn. Þetta reyndist eitthvað svipað.
Gunnhildur frænka mín býr reyndar í þessari blokk. En hún var heppin. Hún hafði verið í partýi kvöldið áður og skilið bílinn eftir þar sem það var haldið.
Segið svo að partýin geti ekki gert sitt gagn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. mars 2007
Saving Iceland gagnrýnir RÚV
Ég rak augun í litla klausu í DV á föstudaginn þar sem Saving Iceland gagnrýna fréttaflutning RÚV frá 21. febrúar um skemmdarverk Earth Liberation Front (ELF) á vinnuvélum í Hafnarfirði, sem hópurinn hélt að væru að vinna að stækkun álversins í Straumsvík.
Fréttatilkynningin er birt á ensku á vef Saving Iceland. Reyndar er hún endursögð á íslensku annars staðar en þar er stytt útgáfa af henni og því vitna ég hér í ensku tilkynninguna.
Þar segir meðal annars:
"We understand that the report has already been transmitted in various versions on RUV radio. In the 8 o'clock news it is stated directly that the ELF are responsible for the website www.savingiceland.org. Quoting RUV: "... The group [ELF] maintain a website devoted to the struggle against heavy industry in Iceland."
Anyone who has done the slightest amount of research would find that the ELF maintain their own website www.earthliberationfront.com. As far as we are aware the ELF are US based and have never before been concerned with environmental issues in Iceland. Clearly RUV did not bother to find out about this until just before the 12.20pm news. But this did not prompt the RUV news department to correct their earlier inaccuracies regarding the Saving Iceland website."
Hér kemur semsagt fram að í fréttinni kl. 8 hafi komið fram að ELF beri ábyrgð á vefsíðunni Savingiceland.org.
En hvernig hljómar svo fréttin? Þetta kemur fram í fréttinni kl. 8 um síðuna sem slíka.
"Á vefsíðunni Savingiceland.org birtist fyrir skömmu tilkynning um það að Frelsisfylking jarðarinnar eða Earth Liberation Front hefði látið til skarar skríða í fyrsta skipti á Íslandi í upphafi þessa árs. Fylkingin hefur framið fjölda skemmdarverka í nafni umhverfisverndar víða um heim undanfarinn áratug. Vefsíðan er fyrst og fremst helguð baráttu gegn stóriðju og virkjunum á Íslandi."
Semsagt: Fylkingin fremur skemmdarverk, vefsíðan er helguð baráttu gegn stóriðju og virkjunum á Íslandi. Hvort tveggja satt og rétt. Og tilkynningin birtist sannarlega á vefsíðunni. Hér stendur ekkert um að ELF beri ábyrgð á vefsíðunni Savingiceland.org. Það er einfaldlega rangt.
Í tilkynningunni er hins vegar réttilega bent á að uppruni fréttarinnar af skemmdarverkunum er annars staðar frá, eða af heimasíðu EFL. Að því komst ég þegar ég tók við málinu og vann frétt um það fyrir hádegisfréttirnar þennan dag. Það má vel vera að það hefði mátt fylgja fréttinni kl. 8 að fréttina hafi upphaflega birst þar en engu að síður er ekkert rangt við þá frétt eins og Saving Iceland vill halda fram.
Síðan segir síðar í tilkynningunni:
"In the lunch time news at 12.20pm Olafur Pall Sigurdsson is mentioned as the "spokesman of Saving Iceland". It is true that OPS is one of the founders of SI and was one of the spokespersons for the protest camp in the summer of 2005. Since then many other people have spoken on behalf of SI in accordance with our policy of rotating that particular function. Never during the protests in the summer of 2006 did OPS speak on behalf of Saving Iceland and he has not been advertised since as freely available to comment on any issue regarding SI. To single one individual out and mention his name in association with this news without his consent is questionable and smacks of highly irresponsible attempts at scapegoating, hardly worthy of a National Broadcast Service."
Semsagt, ég er að gera Ólaf Pál að blóraböggli með því að minnast á hann í fréttinni. Þetta er auðvitað algjör fjarstaða. Við vinnslu fréttarinnar reyndi ég að ná í Ólaf, eins og kom fram í fréttinni. Mér var bent á hann sem talsmann samtakanna af manneskju sem hefur starfað fyrir þau. Ég margreyndi að ná í hann og lagði inn skilaboð á talhólfið hans. Ég notaði símann, vegna þess að yfirleitt er maður fljótari að ná í fólk á þann hátt en með tölvupósti. Meira get ég ekki gert. Það er venja að það er skráður einhvern kontakt-aðili á heimasíður svona samtaka, en ekkert slíkt var að finna á vef Saving Iceland.
Ég benti á í færslu hér á þessari síðu fyrir nokkrum vikum að fólk á það til að lesa í fréttaflutning fjölmiðla og fá úr því eitthvað sem á sér enga stoð í raunveruleikanum. Saving Iceland tiltekur meðal annars að fyrst RÚV ákveður að taka málið upp fyrst þarna þó að fréttin hafi verið á vef samtakanna í fjórar vikur, þá hljóti RÚV að vera að reyna að hafa áhrif á þá sem munu kjósa um stækkun álversins í Straumsvík! Mönnum dettur náttúrulega ekki í hug að ástæðan geti verið sú að við höfum ekki komist á snoðir um fréttina fyrr en þá, sem er auðvitað rökréttasta skýringin.
Þá kemur einnig fram að RÚV hafi aldrei skrifað samtökunum til að leita skýringa. Ég bendi á móti á að Ólafur Páll hefur enn ekki svarað skilaboðum frá mér.
Krafist er afsökunarbeiðni og leiðréttingar. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið spyr ég: Hvað á að leiðrétta?
Ég tek það fram að þessi færsla er skrifuð á mína ábyrgð, en ekki í nafni Fréttastofu Útvarpsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar