Föstudagur, 5. janúar 2007
Persónulegur annáll
Þar sem ég sá nú um innlendan fréttaannál Fréttastofu Útvarpsins, er við hæfi að ég haldi annálaskrifum áfram og líti um öxl yfir árið sem nú er nýliðið.
Ég get ekki annað en hugsað til ársins 2006 með mikilli hlýju, bæði í einkalífinu og starfinu. 27. janúar fæddist Sif og hefur hún fært aukna gleði í líf fjölskyldunnar. Einkalífið hefur mikið snúist um þennan nýja einstakling en þó gerðist margt fleira ánægjulegt þar. Ég er þó aðallega ánægðastur með að hafa tekið þrjá mánuði í fæðingarorlof (sá þriðji er reyndar rétt nýbyrjaður), sem ég tel að hafi verið afar dýrmætt upp á sambandið við Sif. Þegar Líf fæddist var feðrum aðeins boðið upp á tveggja vikna fæðingarorlof, og ég var þá nýbyrjaður í nýju starfi og fannst ekki taka því að taka þetta orlof. Þetta er því gríðarlegur munur.
Í mars byrjaði ég svo að vinna hjá fréttastofu Útvarpsins eftir að hafa starfað hjá Víkurfréttum í þrjú ár. Þetta reyndist góð tilfærsla og finnst mér ég vera á réttum stað hjá Útvarpinu. Ekki aðeins af því að mér finnst þetta henta mér persónulega heldur er afar góður andi á þessum vinnustað og mikill metnaður. Það hefur verið lærdómsríkt að vinna þarna og verður það vonandi næstu árin líka.
Í mars gerðist það einnig að ég byrjaði í líkamsrækt. Ég hafði alltaf haft hálfgerða fordóma gagnvart slíku en nú reyni ég að fara eins oft og ég get. Þetta hefur í það minnsta borið þann árangur að ég hef fengið komment frá kunningjum sem finnst ég hafa lagt af. En aðalmarkmiðið var að bæta þolið og það hefur líka tekist þokkalega. En mest er þó vellíðanin að lokinni æfingu þegar maður hefur létt á allri spennu í líkamanum með átökunum. Það verður í það minnsta framhald á þessu.
Eini ókosturinn við þetta ár var að ég fékk nánast ekkert sumarfrí, þar sem ég skipti um starf í mars. Ég náði þó að kría út eina viku sem var notuð í sumarbústað í Skorradal. Það var mjög ljúft.
Búist er við að þetta nýja ár verði rólegra en það fyrra. Þegar er stefnt að tveimur utanlandsferðum, Flórída um páskana og Danmörk og Noregur í júlí. Nú tekur maður semsagt alvöru sumarfrí. Svo er það bara markmiðið að reyna að bæta sig enn meira í starfinu og einkalífinu.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.