Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Lesið í fréttaflutning

Menn virðast ansi oft falla í þá gildru að reyna að lesa í fréttaflutning fjölmiðla og komast síðan að þeirri niðurstöðu að fréttaflutningurinn sé ekki hlutlægur. Þetta gerist til dæmis oft hjá fólki sem hefur sterkar skoðanir á ákveðnum málum.

Skýrt dæmi um slíkt að mínu mati er þessi færsla Andreu Ólafsdóttur, sem er frambjóðandi fyrir vinstri græna. Þar segir hún "Fréttastofu RÚV" (dreg þá ályktun að hún sé að tala um fréttastofu Sjónvarpsins en hún ætti að vita að það eru tvær fréttastofur á RÚV) með ólíkindum hlutdræga í upprifjun sinni á stóriðju- og virkjanaatburðum ársins 2006 í fréttaannálnum. Ég varð ekki var við slíka hlutdrægni, en ég hef heldur ekki jafn sterka skoðun á þessum málum og Andrea greinilega hefur.

En rök Andreu voru semsagt þau að lítið hafi verið sýnt frá mótmælum gegn virkjunum. Meðal annars hafið lítið verið sýnt frá mótmælum við Kárahnjúka í sumar og ekkert frá mótmælagöngu Ómars Ragnarssonar. Reyndar hafa fleiri orðið til að gagnrýna það að ekkert kom um göngu Ómars í annálnum.

Rétt er að benda Andreu á það að í annál Fréttastofu Útvarpsins var gerð nokkuð ítarleg grein fyrir mótmælunum við Kárahnjúka. Hins vegar var ekki minnst á göngu Ómars, sem eftir á að hyggja hefði átt að gera. En það er alltaf erfitt að meta hvað á að sleppa inn í svona annála og hvað ekki.

Í einni athugasemdinni við færslu Andreu kom fram sú skoðun að RÚV hefði frekar verið með áróður gegn Kárahnjúkavirkjun. Þannig að fyrst fólk hefur svona álíka skoðanir á fréttaflutningi, hlýtur hann að koma öllum sjónarmiðum nokkuð vel á framfæri.

En þetta er ekki eina tilvikið sem slíkt hefur átt sér stað. Hnýtt hefur verið bæði í fréttastofur RÚV og fjölmiðla 365-miðla fyrir fréttaflutning þeirra af RÚV-frumvarpinu. Og þar hafa menn líka verið að horfa of mikið í það hvaða miðill er að flytja fréttina, en ekki hvað hann er að segja. Menn ganga hreinlega að því vísu að fjölmiðlarnir flytji fréttir sem þjóni hagsmunum þeirra best, og lesa svo fréttirnar með það í huga.

Ég held að það yrði algjörlega vonlaust fyrir RÚV og 365 að flytja fréttir af þessu máli án þess að eitthvað yrði hnýtt í fréttaflutning þeirra. Og það er af því að menn hugsa meira um hvaða fjölmiðill er að flytja fréttina og hvaða hagsmuna hann hefur að gæta að viðkomandi máli. Það er slæmt þegar menn geta ekki litið fram hjá því þegar fréttir fjölmiðlanna eru skoðaðar.


Að deyfa þor fréttamanna

Minn gamli yfirmaður, Össur Skarphéðinsson, sagði á heimasíðu sinni að ummæli Páls Magnússonar deyfðu þor fréttamanna RÚV til að fjalla um málefni Ríkisútvarpsins. Í síðdegisútvarpinu tók hann dæmi af ungum fréttamanni sem væri að stíga sín fyrstu spor og framtíð hans væri í hendi Páls Magnússonar.

Ég er ekki viss um að ég myndi teljast í þessum hópi. Ég er ekki að stíga mín fyrstu spor í fréttamennsku þó að ég sé að gera það hjá RÚV. En ég hef aldrei upplifað stöðu mína þannig að framtíð mín sé í hendi Páls Magnússonar. Ég hef fyrst og fremst litið svo á að framtíð mín hjá RÚV sé fyrst og fremst í mínum höndum. Ef ég skila góðu starfi verð ég þar áfram, annars ekki. Og sú staða breytist ekkert þó að Páll Magnússon segi sínar skoðanir á RÚV-frumvarpinu. Það hefur hann gert áður og það hefur ekki haft nein áhrif á mig þegar ég hef þurft að fjalla um þetta mál.

Mér finnst ekki gott til þess að vita að Össur, sem ég hef miklar mætur á eftir að hafa unnið með honum á DV, hafi ekki meira álit á fréttamönnum Ríkisútvarpsins en þetta. Hann sagðist reyndar hafa mikið álit á Fréttastofu Útvarpsins og er það þakkarvert. En skoðanir Páls Magnússonar draga ekki úr mínu þori!


Umræða um ekki neitt

Er að horfa á umræður á Alþingi um Ríkisútvarpið ohf. Skipti þangað yfir að loknum tíu-fréttum. Nú er klukkan hálf ellefu og allar umræðurnar hafa verið um fundarstjórn forseta. Allir sem komið hafa í pontu meðan ég hefur verið að horfa á hafa verið úr stjórnarandstöðunni og hafa sagt það sama - það sé ekki rétt að halda áfram fundi núna og þeir vilja fá svör frá þingforseta um hversu lengi hann ætlar að halda fundi áfram. Sá sem situr á forsetastóli, Birgir Ármannsson, hefur ekki svarað því ennþá þegar þessar línur eru skrifaðar.

Það er ekkert skrítið að umræður um þetta mál taka langan tíma þegar menn taka góðan tíma í að ræða svona hluti.

Í einni ræðunni sem ég hef hlustað á hafði Steingrímur J. Sigfússon áhyggjur af þvi að afskipti Páls Magnússonar útvarpsstjóra af þessu máli settu starfsmenn fréttastofanna hjá stofnuninni í vanda þar sem þeir þyrftu að fjalla um málið. Ég get svarað þessu fyrir mig - það er auðvitað alltaf ákveðinn vandi þegar fréttastofa þarf að fjalla um mál sem varðar það fyrirtæki eða stofnun sem hún tilheyrir. En sá vandi hvorki eykst né minnkar við það að Páll Magnússon segir eitthvað um frumvarpið. Það hefur akkúrat engin áhrif á umfjöllunina.

Nú er Birgir Ármannsson búinn að segja að ekki eigi að ræna þingmenn nætursvefni en umræða eigi að halda áfram um sinn. Skemmtilega loðið og teygjanlegt svar. Samt er enn verið að ræða fundarstjórn forseta nú kl. 22:40, og umræðuefni er enn það sama. Magnað!


Höfundur

Hallgrímur Indriðason
Hallgrímur Indriðason
Fjölmiðla- og íþróttafíkill.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband