Sunnudagur, 7. janúar 2007
Fjölmiðlaumfjöllun um ráðamenn
Í bloggheimum hefur mikið verið rætt um grínið sem tengist Margréti Frímannsdóttur og Telmu Ásdísardóttur á Múrnum. Ég ætla ekki að blanda mér beint í þá umræðu en það sem vakti athygli mína eru mikil hróp eftir fjölmiðlaumfjöllun um málið.
Björn Ingi Hrafnsson sagði meðal annars í pistli sínum um málið frá því í gær.
Svo merkilegt sem það nú er, hefur enginn fjölmiðill séð ástæðu til að ræða við höfunda greinarinnar á Múrnum, t.d. Katrínu Jakobsdóttur, sem er hvorki meira né minna en varaformaður VG. Og á meðan ekkert hljóð heyrist úr horni Múrsins, stendur greinin og hin ósmekklegu ummæli vitaskuld enn og óhögguð.
Og síðar kemur svo þetta:
Halda menn virkilega að stjórnmálamenn á borð við Halldór Ásgrímsson, Davíð Odsson eða Björn Bjarnason hefðu getað látið hafa slíkt eftir sér án þess að fjölmiðlar hefðu gert úr því stórfréttir? Og kannski hefði verið efnt um umræðna í þinginu utan dagskrár?
En þegar um er að ræða varaformann VG, sem setur á prent ótrúlega smekklaus ummæli um merka stjórnmálakonu í landinu og tengir hennar málefni við þrautir landskunnar baráttukonu með þeim hætti að mann setur hljóðan, þá heyrist ekki neitt.
Í þessu tilfelli er þögnin svo sannarlega ærandi.
Þessi röksemdarfærsla finnst mér hæpin, þó að Stöð 2 og Fréttablaðinu hafi greinilega ekki fundist það, því að þessir fjölmiðlar tóku málið upp í kjölfarið.
Það er nefnilega alls ekki sami hluturinn að varaformaður stjórnarandstöðuflokks skrifi undir svona skrif og að ráðherra í ríkisstjórn geri það. Ef ráðherrar gera slíkt, er það að sjálfsögðu mun líklegra til að verða að frétt vegna stöðu viðkomandi einstaklings.
En Björn Ingi er reyndar ekki einn um að vera hissa á því að meira sé fjallað um þá sem eru við völd en hina sem eru það ekki. Þegar ég starfaði hjá Víkurfréttum í Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi kom einn bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði að máli við mig og sagði að það væri Samfylkingarfnykur af blaðinu. Ég var hissa á þessum ummælum, því að nokkrum dögum áður hafði ég fengið hrós frá oddvita Sjálfstæðisflokksins fyrir að fjalla málefnanlega um bæjarmálin. Þegar ég bað bæjarfulltrúann um að útskýra mál sitt betur sagði hann: "Þú skrifar svo mikið um það sem bæjaryfirvöld eru að gera!" Fátt var hins vegar um svör þegar ég spurði á móti hvort að hann héldi að ég myndi ekki líka gera það ef Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd.
Það er sagt á hátíðarstund að hlutverk fjölmiðla sé að veita stjórnvöldum aðhald. Og eðli málsins samkvæmt eru þeir sem eru við stjórnvölinn, hvort sem þeir eru ráðherrar eða í meirihluta í borgarstjórn, meira undir smásjánni og þar af leiðandi meira í fjölmiðlum. Og þá gildir í sjálfu sér einu hvort þeir eru að gera eitthvað gott eða slæmt.
Með þessu er ég ekki að segja að það hafi ekki verið ástæða til að taka þetta tiltekna Múrsmál upp. En það er ekki hægt að bera það saman við að ráðherrar í ríkisstjórn geri eitthvað sem orki tvímælis, eins og Björn Ingi er að gera.
Fólk
Pólitíkusar
Vinir
Liverpool FC
Síður tengdar Liverpool
Fjölmiðlamenn
Bloggarar í fjölmiðlabransanum
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Hallgrímur!
Þú átt auðvitað kollgátuna -- ef gengið er út frá því að aðhaldshlutverk fjölmiðla sé mikilvægt þá hlýtur það að snúa að ráðamönnum fyrst og fremst en ekki þeim sem engu ráða. Þannig ættu fjölmiðlar ávallt að vera í stjórnarandstöðu. Þetta ætti hvert barn að geta sagt sér. Hins vegar hefur Björn Ingi bókstaflega farið hamförum að undanförnu á síðu sinni og krefst þess að fjallað sé til jafns um meint afglöp stjórnarandstöðunnar og stjórnvalda. Af hverju ætli það nú sé?
Björn Ingi hrópaði og kallaði á síðu sinni: Hvar eru fjölmiðlar? Hvar eru fjölmiðlar? Jafnvel þó hann vissi að frétt um þetta tiltekna mál væri í vinnslu á Fréttablaðinu. Jafnvel þó hann ljóst væri að allir sem áhuga hefðu á vissu af þessum brandara múrverja. Átti að segja fréttina oft? Hverju var við að bæta? Það er eins og hann gleymi því að hann er ekki lengur í hlutverki heilaspunamanns lengur. Og eins og hann telji að fjölmiðlar eigi að vera einhver þrýstihópur en ekki að segja frá einhverju sem allir vita. Það telst varla frétt.
Það að leggja þessa ofuráherslu á þennan misheppnaða brandara múrverja bendir til þess að hann hafi eitthvað óhreint mél í pokahorninu sem hann vill ekki að komist í hámæli. Eða að honum finnist nóg um athyglina sem Framsóknarflokkurinn nýtur fyrir vafasamar stöðuveitingar sínar. Að leggja höfuðáherslu á að einhver misheppnaður brandari sé eitthvert kostlegt hneyksli er ekki sannfærandi. Því menn skulu hafa í huga að það eru nú oftast þeir sem móðgast fyrir hönd annarra, þegar brandarar eru annars vegar, bendir til þess að þar fari fordómakurfarnir sjálfir.
Bestu kveðjur,
Jakob
Jakob (IP-tala skráð) 9.1.2007 kl. 20:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.